Byrjunarörðugleikar

Í dag ætluðum við að gerast Danir og sækja um kennitölur en komumst að því að það er bara opið á skrifstofunni á fimmtudögum og föstudögum svo það þarf að bíða enn um sinn. Við eigum líka eftir að græja símamál (og sumir gleymdu líka hleðslutækinu sínu á Íslandi eins og áður hefur komið fram) en okkur tekst líklega að gera svolítinn höfuðverk úr því. Ákváðum að fara í búðarleiðangur í dag. Fórum í Føtex en gleymdum að taka klinkið okkar með og áttum því ekki pening til að taka kerru. Þurftum að finna hraðbanka og með aðstoð frú GPS tókst það. Hraðbankinn var hjá annarri stórverslun en við föttuðum ekki að fara í hana og keyrðum aftur í Føtex. Vorum lengi lengi lengi í búðinni. Vissum ekki hvort kortin okkar væru gild og keyptum því frekar lítið en þurftum mikið að spá og spekúlera. En nú er að minnsta kosti komið hvítvín og appelsínujógúrt í hús og þá er í raun það nauðsynlegasta komið. Mummi fann líka limpu, sér og Strumpu til mikillar gleði. Dætrunum hefur svo verið sinnt lítillega. Það eru margir smá leikvellir hér í kring, einn er með mikilli þrautabraut sem Sóley fékk að fara á. Sunnu nægir róla og sandur til að vera glöð. Við Sóley tókum líka smá bocciakeppni. Þetta finnst henni samt frekar lítil dagskrá. Hún hefur séð sirkusauglýsingar og vill gjarnan komast á hann en nefndin hefur ekki komist að niðurstöðu. Svo er beðið í ofvæni eftir Tivoli Friheden. Eins og hún spurði í dag – til hvers vorum við eiginlega að flytja? Annars er bara gripið í smá upppökkun, við sjáum að við höfum tekið allt of mikið með okkur því hér er allt til alls. Stelpurnar gleðjast yfir gjöfum náttúrunnar, hér eru jarðarberjaplöntur og rifsberjarunnar innan seilingar, auk kirsuberjatrjánna en berin mega bíða sér örlítið til batnaðar. Við fengum okkur síðdegiskaffið úti í garði en það gjólaði reyndar full mikið og í daga hafa skipst á skin og skúrir. Ekkert frábært veður framundan í kortunum en alveg viðunandi samt.