Góðir gestir

Þá eru MA kennarar komnir og farnir. Fyrst fengum við dönskudeildina og heiðurmeðlimi í mat (Selmu og Þengil, Ragnheiði og Jónas og Gunnu). Mummi skellti í fiskefrikadeller, það verður auðvitað að halda í danskt þema. Við vorum leyst út með gjöfum, stelpurnar fengu sælgæti og við líka auk þess að fá Gammel dansk. Áttum ágæta kvöldstund í þessum góða selskap.

Í gær fór allur hópurinn í heimsókn í Egå Gymnasium sem er hér í næsta nágrenni, svo ég skottaðist til fundar við félagana þar. Skólinn er hreint magnaður frá a – ö, alveg nýr og húsnæðið algjör draumur, íþróttasalurinn er til að mynda hluti af húsinu og hægt að horfa á tíma, því hluti salarins er glerveggur. Það er stór aðstaða til að matast, það er fyrirlestrasalur sem hægt er að breyta eftir þörfum, litlir krókar og kimar hér og þar til að vinna í hópum, raungreinastofurnar eru með græjum sem ég ímynda mér að enginn framhaldsskóli á Íslandi hafi, allar stofur með skjávörpum og snjalltöflum og útsýni af kennarastofunni sem slagar upp í útsýnið úr Gamla skóla (bara ekki af kennarastofunni). Nemendurnir voru ekki síður til fyrirmyndar, ég fór til að mynda inn í tvo bekki, í dönskutíma og enskutíma. Í dönskutímanum var sérlega áberandi að allflestir nemendurnir tóku virkan þátt, þegar kennarinn spurði yfir bekkinn voru alltaf nokkrar hendur á lofti og ekki alltaf þær sömu, nemendurnir svöruðu þegar á þá var bent, enginn greip fram í, þeir hlustuðu hver á annan og fóru svo djúpt í söguna sem þeir voru að lesa að manni fannst frekar að þessi tími ætti sér stað í háskóla. Satt best að segja var þessi hópur meira á háskólaplani en þeir hópar sem eru með mér í tímum.

Eini gallinn á gjöf Njarðar var að við fórum án þess að fá vott né þurrt (nema þeir sem báðu um vatn og fengu það náðarsamlegast) svo það var svangur hópur sem hélt með mér heim. Veðrið var því miður ekki eins og pöntunin hafi hljóðað upp á (og var búið að lofa dagana á undan) en það hélst þurrt, svo þeir hörðustu komu sér fyrir í garðinum, öðrum var púslað þétt í stofu, borðstofu og eldhúsi. Það bjargaði reyndar heilmiklu að hluti hópsins, sem hafði farið með Gunnu á pöbbarölt (eða skoðunarferð) skilaði sér seint eftir ævintýri við að finna leiðarendann. Ég hafði svo skellt í alvöru danska lagköku en látið Føtex taka af mér ómakið með kransakökuna, síðan var ég með bjór og hvítvín sem var svo vel falið í geimskipslegu íláti að enginn fékk sér af því. Fólkið fékk því loks smá hressingu eftir erfiðan seinnipart.

Mér til mikillar undrunar var Skottan alveg hress með þennan fjölda og sólaði sig í athyglinni (eins og Strumpan en það kom hins vegar engum á óvart). Henni þótti reyndar Valdimar ögn skrýtinn, enda skartar hann veturgömlu skeggi og er farinn að minna á Gandalf. Gestirnir stoppuðu mislengi, þeir síðustu fóru rétt fyrir sex, höfðu þá þurft að bíða af sér eina hressilega skúr eða kannski meira hagl. Það var hálf dauflegt í kofanum eftir að hann tæmdist og eftirsjá af því að vera ekki með hópnum alla ferðina. Ég náði heldur ekki að spjalla almennilega við alla. Í dag fóru þau í Aros, áður en þau héldu áfram, ég hefði fylgt þeim þangað nema hvað ég var að fara í tíma um Sult Knuts Hamsun og mátti engan veginn missa af því.

Sem betur fer er alls konar félagslíf framundan, fyrst fer ég á aðalfund LC á laugardag, síðan kemur reyndar helgi sem er alls óplönuð en eftir það hellast yfir okkur viðburðir. Það styttist líka alltaf í heimför, nú er búið að kaupa far fyrir alla, Mummi kemur flugleiðis með dætur 16. júlí en ég læt bíða eftir mér og bílnum og kem til landsins 19.