Ömurlegasti afmælisdagur lífsins

Sjúklingurinn hefur svo sannarlega ekki átt sjö dagana sæla þessa vikuna. Hlaupabólan mætti á sunnudaginn og var aldeilis ekki af vægara taginu. Heilsan var slæm á mánudaginn, versnaði á afmælisdaginn og var líka ömurleg á miðvikudag. Eins og hún orðaði það sjálf þá var þetta versti sjúkdómur sem hún hefur fengið á ævinni og orðið hata hefur verið henni framarlega á tungu. Síðan hefur ástandið hægt og bítandi lagast. Daman lítur samt enn út eins og hún sé með Stóru Bólu og henni hugnast ekki að mæta í skólann í svona ásigkomulagi.

Afmælisdagurinn var annars tekinn snemma, aðallega vegna þess að Skottan vaknaði klukkan sex og vakti stóru systur. Ég skreið á fætur og klukkutíma síðar var ýtt við pabbanum og sungið fyrir afmælisbarnið, fyrst á íslensku, síðan á dönsku, litlu systur til mikillar gleði. Hún fékk svo slatta af pökkum, grjónastól frá foreldrunum og mjög langþráðan rafmagnstannbursta frá litlu systur auk ýmissa pakka frá Íslandi og Svíþjóð. Aðal pakkinn frá Svíþjóð kom samt ekki fyrr en um kvöldið, Anna og Martin höfðu ákveðið að verða við aðalafmælisóskinni um að koma (þrátt fyrir bágborið ástand). Að öðru leyti var afmælisdagurinn frekar dapur, hún hafði ekki einu sinni lyst á að borða svo það var ekki hægt að gera vel við hana að neinu leyti.  Þeir sem lögðu í að heyra í henni á Skype fengu líka frekar súran viðmælanda.

Miðvikudagurinn var líka vondur og kannski það versta að nætursvefninn hafði verið af skornum skammti. Ég hafði annars keypt eitthvað forláta sprey, auk þess sem við gáfum henni ofnæmistöflu sem átti að hjálpa við kláðanum en ekkert hafði neitt að segja. Við tókum því rólega hér heima, tókum reyndar á móti Steina bróður Önnu systur og stráknum hans, þeir búa hér í tæplega tveggja tíma fjarlægð. Þeim systkinum reiknaðist til að hafa ekki sést 18 ár, svo það var heldur betur kominn tími til.

Á fimmtudag fór ég í skólann, tímdi ekki að skrópa því við vorum að ræða Bróður minn Ljónshjarta. Það var skemmtilegur tími, þótt ég legði lítið til málanna. Fékk reyndar hugljómun en það var í lok tímans svo ég var ekkert að bera það undir aðra, en ég fór sem sagt allt í einu að spá í Kötlu útfrá eldfjallinu okkar og spá í hvort það væri ekki samhengi þar á milli. Gestirnir höfðu sjálfir ofan af fyrir sér þennan daginn með því að skoða helstu kirkjur Árósa, um kvöldið pössuðu þeir svo dæturnar og við hjónin fórum í bíó, í fyrsta skiptið sem við förum út saman að kvöldlagi síðan í júlí á síðasta ári.

Ég sinnti gestunum síðan lítillega í gær, við fórum í bæinn og rápuðum í búðir, þar kemur þekking mín að góðum notum og þeir náðu að gera alls konar góð kaup, ég reyndar líka, þeim til samlætis. Vorum í yndislegu vorveðri og nutum lífsins. Anna og Martin yfirgáfu okkur síðan í morgun og við höfum tekið því afar rólega. Skottan er til dæmis komin á þá skoðun að það sé alveg nóg að sofa til sex, þannig hafa allir dagar vikunnar verið, en það sem meira er, þá finnst henni líka alveg nóg að taka seinnipartslúr annan hvern dag og í dag var bara hvíldardagur en ekki svefndagur.

Sjúklingurinn er að skríða saman en er að verða full góðu vanur að mati móðurinnar og heimtar þjónustu með alla hluti auk þess að vilja til skiptis horfa á sjónvarp og vera í tölvu/Nintendo. Sem betur fer fékk hún bækur í afmælisgjöf og hefur hlýtt því að lesa líka, auk þess sem ég var búin að fara á bókasafnið og taka nokkrar bækur fyrir hana. Ein þeirra varð svo meira fyrir mig, fyrsta bókin í seríu eftir höfund Önnu í Grænuhlíð. Ég datt alveg í hana og bíð núna eftir að nálgast næstu tvær og sá þar að auki að það hefur verið gerð sjónvarpssería eftir henni. Það er svo sem ekki gríðarlegur munur á Emily og Önnu, alls konar kunnugleg stef en ég læt það ekki á mig fá. Því miður eru bækurnar ekki fáanlega fyrir Kindil, annars hefði ég umsvifalaust keypt þær.

Heilsufar og annað spennandi

Skottuprikið slapp býsna vel undan veikindunum. Fékk vissulega haug af bólum og lærði auðvitað hið nauðsynlega orð bóla en fékk hvorki háan hita né mikinn kláða, svo við þurftum ekkert að smyrja hana með kremum. Enn bólar ekkert á bólum á Strumpunni, ég veit ekki hvort ég á að fagna að hún hafi í raun og veru fengið VÆGA útgáfu hér um árið eða hvort það er bara það að hún hafi ekki smitast af systurinni, en er á meðan er. Litla daman var heima í viku eins og gefur að skilja og fannst það þrautleiðinlegt og bað nánast á hverjum degi að fara til dagmömmunnar. Sem hlýtur að vera gott. Hún fékk þó náðarsamlegast að fara í garðverkin með mér fimmtudag og föstudag og stóð sig best í að henda því sem ég var búin að tína aftur á grasið. Hún var að vísu líka lunkin við að lúra í hjólbörum. Það er sem sagt allsherjar reitur hér rétt við þar sem allir virðast fara með garðaúrganginn sinn (þar voru jólatré sem virtust vera klár í slaginn fyrir næstu jól), svo ég trillaði þangað með draslið og Skottan fékk far í hjólbörunum í bakaleiðinni. Eitthvað rámar mig í að hafa fengið svoleiðis túra með afa í gamla daga og þótt gaman og þótti ekkert verra að endurtaka leikinn með litlu dömuna. Strumpan fékk svo smá nasaþef á laugardeginum þegar ég kláraði garðvinnuna.

Af öðru heilsufari ber hæst að ég fór í megafússball með LC og slasaði mig svo illa á tá að enn sér ekki fyrir endann á því. Stóratáin bólgnaði upp og var að auki blá og marin og enn (ríflega tveimur vikum seinna) er ástandið þannig að ég get ekki gengið í hvaða skóm sem er. Ég vona að það komi allt, ég hef að minnsta kosti afsökun til að stunda ekki frekari íþróttir að sinni.

Ég fór líka til læknis á dögunum, ákvað að gera eitthvað í því sem ég var raunar búin að sjúkdómsgreina með aðstoð vinar míns internetsins. Ég er sem sagt með rósroða og eins og læknirinn orðaði það, þá er það algengt hjá konum á mínum aldri. (Eins og gefur að skilja var ég ekki hress með þetta þangað til ég las að þetta gilti um konur frá 30 til 50 ára.)  Anyways, hann sagði að það væri nú lítið mál að redda þessu og ég fékk sýklalyf sem ég þarf að taka í 8 VIKUR. Eins gott ég þarf ekki að hætta að drekka vín á meðan (mér skilst að þetta geti versnað með kaffi- og víndrykkju en frekar skal ég vera eins og karfi í framan en að hætta að drekka kaffi og vín, amk kaffi, hinu hef ég fórnað í óléttuástandi.)

Af öðru en heilbrigði heimilismeðlima er það helst að frétta að við splæstum í sjónvarp í bíóstærð. Ég sem sór einu sinni að 37″ sjónvarp dygði öllum venjulegum heimilum hef lúffað eða jafnvel ýtt undir að stærra sjónvarp yrði fyrir valinu. Nú er bara að smygla því heim án þess að borga skatt og toll og þá eru allir glaðir.

Í dag vorum við í afmæli, ein sem er með Skottu hjá dagmömmu átti tveggja ára afmæli. Líklega er þetta metnaðarfyllsta tveggja ára afmæli sem ég hef komið í, ekki nóg með að liðið væri drifið út í fjársjóðsleit, þá var líka sungið, dansað og hoppað í hjónarúmi. Skottan var alsæl, bæði með skemmtiatriðin (og nammið sem hún fékk í fjársjóðsleitinni) en ekki síður með allt dótið sem var á staðnum. Foreldrarnir voru að auki svo almennilegir að bjóða fram pössun ef okkur vantaði, eftir að ég hafði líst því hvað væri „erfitt“ að vera fjarri fjölskyldunni og eiga engann að. Ég hótaði auðvitað að hún yrði þarna hverja helgi héðan í frá.

Okkar bíður svo afmæli á þriðjudag. Strumpan búin að bjóða bekkjarsystrum sínum í veislu og eins og venjulega getur hvorug okkar beðið, hún eftir að afmælið komi, ég eftir að afmælisveislan verði búin. Við munum auðvitað taka dönsku leiðina á þetta, hún fer með flødeboller í skólann og við skellum síðan í lagkage, það er þó enn óvíst með dönsku fánana.

Af sérlega ánægjulegum fréttum er það helst að hér er að verða uppbókað í maí og stefnir líka í gesti í júní. Um miðjan maí koma Hanna og Ármann með unglinginn í heimsókn og um Hvítasunnuhelgina koma Óli, Eygló og Gunnsteinn. Við bindum vonir við að Kittý komi með grísina í júní en erum svo sem að gæla við að fara sjálf í allsherjar Svíþjóðarreisu um mánaðarmótin maí/júní. Þannig að lysthafendur eru beðnir um að bóka gistingu sem fyrst áður en allt verður upppantað. Það stefnir síðan í heimferð 16. og 19. júlí, Mummi með dæturnar í flugi með (ó)vinum okkar í Iceland Express og ég með vinum okkar á Smyril Line um svipað leyti. Þetta er þó ófrágengið enn, en er líklegast í stöðunni.

Aukafærsla

Það er ekki úr vegi að skella inn aukafærslu fyrir febrúarmánuð í tilefni dagsins. Eitt og annað sem hefur drifið á dagana þessar tvær vikur hvort eð er.

Fengum góða gesti, eins og fram kom í síðustu færslu. Gylfi afi og Adda amma komu hér á leið sinni til Norðmanna. Dæturnar alsælar að fá selskap, Skottan var vissulega feimin í svona korter eftir að gestirnir létu sjá sig en það var of erfitt að vera feiminn þegar var farið að skoða bækur og ræða Bamse og Kylling. Við eldri mæðgur fórum með gestunum í bæinn í smávegis búðarleiðangra og örlit inn í Aros í frekar köldu veðri (það var enn vetur þegar þetta var). Gestunum var svo komið í lest á föstudagsmorgni.

Á laugardagskvöldi fórum við eldri mæðgur síðan á tónleika með Rasmussi vini okkar Seebach. Skemmtum okkur fyrst vel í strætó sem var sneisafullur af öskudagsklæddum ungmennum. Þegar við mættum á tónleikastaðinn fórum við eins nálægt sviðinu eins og hægt var án þess að troðast og var þá um hálftími í tónleikana. Strumpan þurfti að sjálfsögðu að fara á klósettið (hafði þó verið rekin á klósett fyrir brottför) en tímdi ekki að missa kannski þessa fínu staðsetningu svo við ákváðum að sjá til hvernig partýblaðran stæði sig. Klukkan átta byrjaði svo upphitunarpiltur, Ankerstjerne og var hinn þokkalegasti, Strumpan komst í gott skap aftur og gleymdi aðeins að vera þreytt á að standa. Þegar hann hætti tók aftur við bið og þá var daman aftur að örmagnast. Goðið kom svo fram korter í níu. Sem betur fer höfðum við þokkalegasta útsýni en ég lyfti Strumpunni þó af og til svo hún sæi betur. Um hálf tíu var partýblaðran full og ég átti raunar von á hléi hvað úr hverju svo við tróðumst til baka og tæmdum blöðruna, auk þess að fylla á hana aftur. Ákváðum að troðast ekki aftur inn í þvöguna og komum okkur fyrir aftast í salnum og vorum þar það sem eftir leið. Undir lokin hafði stelpa sem stóð við hliðina á okkur svo mikla samúð með okkur (mér fyrir að halda af og til á Strumpu og Strumpu fyrir að sjá ekkert) að hún rak kærastann sinn til að taka Strumpuna á háhest, svo hún hafði gott útsýni fyrir rest. Við stungum svo af eftir fyrsta uppklappið, keyptum bol handa dömunni á útleiðinni og náðum strætó fljótlega. Það er óhætt að segja að við höfum báðar verið alsælar, mér finnst pilturinn sem betur fer góður en aðallega fannst mér gaman að fara með henni.

Viku síðar áttum við hjónin smá gæðastund, fórum í útsýnisflug í þyrlu. Það var jólagjöfin til Mumma. Túrinn var reyndar stuttur og ég hafði reyndar séð fyrir mér að við sætum hlið við hlið og horfðum djúpt í augu hvers annars svona á milli þess sem við horfðum á Árósa, en ég sat við hliðina á flugmanninum og Mummi fyrir aftan mig svo hann gat í mesta lagi horft í aðdáun á hnakkann á mér. Þannig að rómantíkin fór fyrir lítið en reynslan var engu að síður frábær. Mig langar að fljúga aftur í þyrlu, það er skemmtilega frábrugðið flugvélum.

Seinni partinn sama dag lagði fjölskyldan í’ann til Skagen, þar áttum við enn og aftur dekurhelgi í vændum. Og þrátt fyrir að ég útskýrði að ég hefði bætt á mig tveimur kílóum í síðustu heimsókn var engin undankoma frá því að éta á sig gat. Við tókum hefðbundið prógramm, göngutúr í miðbænum og rölt niður að sjó í frábæru veðri. Skottan fékk meira að segja að halda í tauminn hjá Boss og þótti það ekki ónýtt, hljóp við fót á eftir honum. Strumpan græddi mikið á bæjarferðinni. Ég hafði asnast til að segja frá því hvað hana langaði í topp en ætti bara svo erfiða móður. Kim og Bente tóku þá auðvitað til sinna ráða, eins og hver önnur afi og amma og keyptu nærföt á barnið svo örið á sálinni ætti einhvern séns að lagast. Á sunnudeginum kom síðan í ljós að Skottan var farin að steypast út í bólum, hlaupabólan mætt á svæðið. Stóra daman að auki hóstandi. Þær hafa því báðar verið heima þessa vikuna og við reyndar beðið í ofvæni eftir að sjá hvort sú stærri fengi líka hlaupabólu, því það er frekar óljóst hvort hún hafi fengið vægustu mögulegu útgáfu af henni eða bara ekki. Nú er því bóluleit daglega. Skottan lætur þetta reyndar lítið á sig fá, hefur bara bætt þessu gagnlega orði í orðaforðann. Ég er eiginlega dauðfegin að ljúka þessu af, sérstaklega af því að þetta er átakalítið.

Skólinn minn er bara stuð ennþá. Ég er að lesa Strindberg í stórum stíl núna, það gengur svona upp og ofan. Svara þó stundum í tímum og bíð bara eftir að það komi eitthvað á sænsku, svona í hita leiksins. Hlakka mest til tímans þar sem við tökum Bröderna Lejonhjärta, þarf ekki einu sinni að lesa heima fyrir þann tíma þar sem ég gæti nánast farið með hana utanbókar (kannski ekki á sænsku þó 🙂 ).

Kominn tími til

Nú er spurningin hvort ég sé góð að muna hvað hefur gerst síðan síðast. Það sem er kannski hvað markverðast er að ég tók ákvörðun varðandi námið, ég ætla ekki að halda áfram næsta vetur og þar af leiðandi er ég líka búin að ákveða að fara ekki í próf í vor. Svo nú er lífið heldur náðugra en var. Ég lagðist undir feld og komst að þeirri niðurstöðu að þó að mér hafi fundist námið mjög áhugavert þá er það mér ekki slíkt hjartans mál að ég vilji skilja fjölskylduna að, jafnvel þó ég kæmist upp með að fara heim um jól. Þar spilar eflaust fortíðin inn og líka sú vitneskja að þó þetta væri ekki langur tími, þá er hann samt drjúgur hluti af þeim tíma sem maður hefur börnin hjá sér. Og svona er forgangsröðunin núna, börnin mín fyrst og síðan ég. Sérstaklega þegar ég brenn ekki meir fyrir þessu en raun ber vitni.

Ég var annars býsna sátt við einkunnirnar mínar, fékk 7 í áfanganum sem ég klúðraði prófinu í, það hlýtur að þýða að ritgerðin sem gilti helming á móti prófinu hefur verið all þokkaleg. Ég fékk svo 10 (af 12 NB) fyrir stóru ritgerðina sem var námsmat í tveimur kúrsum. Reyndar er meðaleinkunnin há í báðum þessum fögum og það dró aðeins úr gleðinni en skítt með það, þetta er alveg til að una við.

Nú er ég byrjuð í áfanga sem var óskaáfanginn minn frá því að ég fór að skoða nám hér úti. Hann heitir Skandinaviske studier og er norsku- og sænskuáfangi. Það eru tveir kennarar, annar norskur og hinn sænskur og við eigum að lesa bókmenntir á norsku og sænsku. Mér líst ljómandi vel á byrjunina, það er æðislegt að hlusta á norskuna og sænskuna en ég verð að viðurkenna að mér gengur betur að skilja sænskukennarann, enda þaulvön að hlusta á sænsku. Norskan er hins vegar að jafnaði auðveldari í lestri.

Ég átti frábæra helgi með LC klúbbnum mínum í janúar. Við fórum í sumarbústað í Ebeltoft, sá allra flottasti sem ég hef komið í, nema hvað það var enginn heitur pottur og þá brugðum við nokkrar á það ráð að baða okkur í sjónum, án baðfata, hahaha. Um hábjartan dag, hahaha. Annað kvöldið var svo Sing star keppni þar sem ég fór auðvitað á kostum, því miður ekki fyrir fallegasta sönginn en alveg pottþétt fyrir mestu innlifun og góða textaþekkingu. Nema þetta smáatriði að það sé í raun ekki sungið „I guess it rains down in Africa“ sem er auðvitað miklu betri texti en „I bless the rain…“.

Lenti síðan í því óstuðlega atviki að keyra niður hjólreiðamann. Með öðrum orðum, það er enn innbyggt í mig þegar ég hjóla að passa mig svakalega vel á bílunum en ekki eins vel innbyggt í mig þegar ég keyri að passa mig svakalega vel á hjólreiðamönnunum. Vona að ég læri af reynslunni. Blessunarlega var þetta eins lítið og hægt var, hjólreiðastúlkan var heil og hjólið þurfti bara smá viðgerð. Bíllinn minn er kominn með enn eina rispu í safnið. Frekar glatað samt og ég hefði nánast þurft að fá áfallahjálp en það sem drepur mann ekki (eða hjólreiðamanninn) styrkir mann bara.

Dæturnar eru síkátar, eða svo gott sem. Strumpan unir sér reyndar misvel í skólanum og leikur lítið við bekkjarfélagana. Hún fór samt í gistipartý með bekkjarsystrunum og skemmti sér ágætlega og vildi endilega fara í vistun þessa vikuna, þó það sé vetrarfrí. Það var vetrarhátíð í skólanum í síðustu viku, krakkarnir komu í búningum (daman sem Scarlett O’Hara, sá kjól í auglýsingabæklingi sem var merktur svona og leist ægilega vel á hann) en Skottan sem dalmatíuhundur. Bekkurinn + foreldrar borðuðu saman, svo voru alls konar þrautabásar, draugahús og kötturinn sleginn úr tunnunni.

Skottan er enn alsæl hjá dagmömmunni og myndi eflaust fara um helgar ef það væri í boði. Þær eru bara tvær þar enn þá, þó af og til komi aukakrakkar. En þetta er mikill lúxus eins og er. Hún var mjög sátt við (allan) snjóinn sem kom þó mamman væri löt að fara út að leika, lét bara fagfólkið um það. Það tínast alltaf inn ný orð, op at sidde, vanter på og fleira og hún skilur rosalega mikið, ég prófa stundum að tala dönsku við hana og henni finnst það ekkert dularfullt. Hún er aðdáandi Strumpunnar nr. 1 og elskar að brasa með henni en er samt, eins og áður, alveg rosalega dugleg að leika sér ein.

Mummi er allan daginn í einangrunarbúðum, situr og vinnur frá morgni til kvölds. Ég fæ hann annað slagið til að horfa á eitthvað danskt með mér til að æfa hann, keypti mér Matador um daginn og það hentar prýðilega af því að hann missti af þessu í sjónvarpinu hér um árið. Eitthvað verður hann að verða danskari af búsetunni 🙂 .

Við fáum svo gesti á morgun og hlökkum svakalega til, Gylfi og Arnheiður ætla að líta við hjá okkur á leið upp til Noregs. Síðan förum við mægður á tónleika með Rasmus Seebach á laugardagskvöldið, smá dekur mæðgnastund og helgina þar á eftir förum við líklega til Skagen að líta á vini okkar Kim og Bente. Og tíminn líður.

Mánaðarpistillinn

Þá er nánast mánuður síðan síðast og skrifast víst bara að hluta til á miklar annir. Nú er ég búin að hafa það náðarsamlegt í ellefu daga, síðan ég skilaði ritgerðunum mínum inn. Ég ætla samt að líta yfir farinn veg síðasta mánuðinn og skrifa jólafærslu og allan pakkann.

Ef ég byrja nú þar sem frá var horfið, þá lögðum við leið okkar til Kaupmannahafnar, sunnudaginn 18. des. Sunna var reyndar hundveik með 39 stiga hita, en hún var dópuð upp. Tókum lest snemma morguns, dætrunum til ómældrar gleði. Já, þetta er þægilegur ferðamáti fyrir fjölskyldur (svona fjögurra manna amk) þar sem er hægt að sitja öll saman og dunda sér. Við komum um hálf tólf og byrjuðum á að fá okkur KFC á Ráðhústorgi, algjörlega ómissandi, því ekki búum við svo vel að hafa KFC hér í Árósum. Þaðan lá leiðin á Strikið með tilheyrandi stoppum á kaffihúsi og hjá möndlusölum og þess háttar. Við gengum að sjálfsögðu alla leið upp að Nýhöfn og spásseruðum þar. Síðan fórum við í rólegheitum tilbaka og enduðum um hálf fjögur í Tívolí. Sunna svaf megnið af síðdeginu en Sóley var alveg heilluð af umhverfinu og við náðum einmitt ljósaskiptunum. Fröken fékk turbånd og fór talsvert í tæki, þó er hún auðvitað enn of lítil til að fara í aðal tækin (móðurinni til mikils léttis), við komumst reyndar að því að hún var rétt búin að ná nægri hæð til að fara í Dæmonen en það kom ekki til þess að hún færi í hann. Við vorum búin að panta borð á Hercegovinu (sem er veitingastaður í Tívolí) klukkan hálf sjö, en við vorum öll orðin köld og Sunna mjög drusluleg svo við flýttum ferð okkar og vorum þar um sex. Fórum á jólahlaðborð og það var mjög indælt en átti svo sem ekkert í góðugóðu jólahlaðborðin heima. Sóley komst þó á bragðið með ris a la mande. Við flýttum okkur bara heim á hótel (hið sama og ég var á fyrr í mánuðinum), vorum ánægð með herbergið sem var stórt og gott, allir fóru í bað (Sunna þó með háværum mótmælum, því hún kærir sig hvorki um bað- né sturtuferðir) og dömurnar voru fljótar að sofna.

Á mánudeginum byrjuðum við á að fara á kaffihús á lestarstöðinni og síðan tókum við strætó í dýragarðinn. Meðan við biðum eftir strætó, skemmti stóra systir þeirri litlu með söng, það er í miklu uppáhaldi að syngja „i dag er det mors fødselsdag, hurra, hurra, hurra“ og skýringin er væntanlega sú að hér á heimilinu er til bók sem heitir Annas mor har fødselsdag, þar sem þessi söngur kemur fyrir. Þetta hafði þau áhrif að aðrir sem biðu eftir strætó horfðu glaðlega á mig í þeirri trú að ég ætti afmæli. Kona sem stóð við hliðina á okkur spurði hvort við værum á leið í dýragarðinn, það var reyndar ekki búið að segja Sóleyju frá því en ég jánkaði og þá þyrlaðist daman auðvitað upp. Við áttum góða ferð þar, báðar dömurnar alveg yfir sig hrifnar af dýrunum og það var margt að sjá. Satt best að segja var þetta líka jákvæðari ferð fyrir mig, síðast þegar ég fór, með Sóleyju sex mánaða, varð ég þunglynd af því að horfa á dýrin svona innilokuð. Það er búið að gera eitt og annað síðan síðast svo þetta var betra.

Við fórum svo tímanlega af stað á lestarstöðina, borðuðum og bjuggum okkur svo undir að fara í lestina. Þá ropaði Sóley upp úr sér hvort við ætluðum ekki að sækja töskuna í skápinn… stress stress stress, ég hljóp af stað og náði á síðustu stundu til baka og við inn í lestina. Ég var  lengi að ná mér niður, bæði er formið nú ekki betra en svo en það var ekki síður adrenalínflæðið sem var á fullu. Að öðru leyti var ferðin heim tíðindalaus, við komum heim um kvöldið og tókum strætó heim.

Dagarnir fram að jólum fóru að mestu leyti í lærdóm og að finna eitthvað að gera á daginn fyrir Sóleyju. Hún fékk að byrja að skreyta en annars leiddist henni hálf. Á Þorláksmessu sóttum við Sunnu um hádegi, skreyttum jólatréð í rólegheitum, borðuðum pizzu og suðum hangikjöt. Aðfangadagur var að öllu leyti mjög rólegur, dæturnar horfðu á sjónvarpið, allir fóru í jólasturtu, ég fór í messu í Egå kirkju seinni partinn til að fá að upplifa samanburðinn (það er afar einkennilegt að Heims um ból sé ekki síðasti sálmur!) og svo borðuðum við klukkan sex, önd og ris a la mande. Möndlugrauturinn féll í góðan jarðveg hjá öllum (Sunna lét sér þó nægja nokkrar skeiðar, og fékk ís sem auka-eftirrétt) og ótrúlegt en satt, þá var það Sóley sem fékk  möndluna. Ekki var nú mikið pókerfés yfir því, það var opinberað um leið og það var ljóst.

Við foreldrarnir gengum frá með góðri aðstoð dætranna og tókum svo upp haug af pökkum, en í algjörum rólegheitum. Sunna var alveg með á nótunum og opnaði eins og atvinnumaður en hafði þó líka gaman af innihaldinu og staldraði oft við og skoðaði og dáðist að. Klukkan var orðin margt þegar þessu var lokið, þá var smá Skype og síðan var unga daman sett í bælið en hin fékk að vera á fótum lengur. Við hjónakornin lásum jólakortin undir miðnættið eins og oft áður og fórum svo í bæl.

Jóladagur var sömuleiðis rólegur, við fórum út í lítinn göngutúr í yndislegu veðri, borðuðum hangikjötið um kvöldið (og heimalagaða ísinn sem tókst vel en bragðaðist ekki eins og heima…) Um kvöldið horfðum við þrjú á Jólaævintýri Prúðuleikaranna, ætli við reynum ekki að gera hefð úr því, dömunni fannst þetta gaman.

Á öðrum í jólum fórum við í Den gamle by. Þangað var gaman að koma en yngsti fjölskyldumeðlimurinn var hvorki ánægður né þakklátur fyrir þessa ferð. Við höfðum hana ekki í kerru, til að eiga hægar um vik að komast um inni í húsunum og það kostaði bara vesen. En ég keypti árskort og fer kannski bara síðar og skoða í afslappaðri stemmingu. Ég kom þarna fyrst fyrir 20 árum og man að mér fannst það bara hæfilega gaman, sennilega hefur þroskinn eitthvað haft með áhugann að gera.

Á milli jóla og nýárs reyndi ég að halda áfram að sinna lærdómi, dæturnar voru samt báðar heima og fannst móðirin frekar leiðinlegur félagsskapur. Sóley kvartaði sérstaklega og finnst ég reyndar sinna náminu allt of mikið (svo það er erfitt að gera öllum til hæfis, mér finnst ég engan veginn sinna því nógu vel). Ég fór einn dag á bókasafnið til að ná góðum heilum degi en samt gekk þetta býsna hægt. Ákvað að taka áramótin samt alveg rólega og gamlársdagur og nýársdagur voru þannig algjörir frídagar.

Við gerðum samt fátt, á gamlársdag fórum við mæðgur þó í leikhús og horfðum á Bróðir minn Ljónshjarta og það var reglulega skemmtileg ferð, gaman að koma í leikhúsið líka. Um kvöldið borðuðum við rækjur, hrygg og sítrónufrómas og ég hafði að auki keypt míni kransaköku sem við gæddum okkur á um kvöldið. Við horfðum á sjónvarpið (halvfems års fødselsdagen er skylduáhorf) og hoppuðum niður af stól á miðnætti.  Reglulega notalegt, en í raun ekki  svo ólíkt því sem við erum vön. Sóley fékk líka þau tíðindi um miðnætti að hún fengi að fara til Íslands með pabba sínum. Að vísu var inngangurinn þannig að hún skildi það þannig að hún fengi ekki að fara og þá voru tárin fljót að spretta fram, svo hún var í mikilli geðshræringu þegar hún fékk tíðindin.

Á Nýársdag var það sama uppi á teningunum, við héldum okkur heima við, ég sinnti ritgerðarskrifum. Borðuðum nautakjöt og jarðarberjamousse. Það var einkar ánægjulegt að gefa dætrunum að borða alla þessa daga, þær borðuðu alltaf eins og herforingjar.

Sunna fór strax næsta dag til dagmömmunnar og ég á bókasafnið að skrifa, með hálfum huga því ég var ekki svo bjartsýn á að ég næði að ljúka ritgerðarskrifum en ákvað að láta vaða. Átti góðan dag á bókasafninu og var nokkuð bjartsýnni þegar ég kom heim um kvöldið. Næsta morgunn hjólaði ég með Sóleyju í skólann og fór svo aftur á bókasafnið og kláraði ritgerðina mína. Við hjónin fínpússuðum hana um kvöldið, bæði málfar og uppsetningu og þá var þetta frá. Henni var skilað daginn eftir og síðan hefur letin verið við völd.

Sóleyju líst vel á sig í nýja skólanum, eignaðist að sjálfsögðu vinkonu fyrsta daginn en er einna helst súr yfir að vera að læra stærðfræði sem er fyrir neðan hennar virðingu. Hún er skráð í sundklúbb í skólanum og byrjar á æfingum í næstu viku.  Þau feðgin eru búin að vera viku á Íslandi, hann að vinna og hún á fullu í félagslífinu, bæði búin að fara í heimsókn í gamla bekkinn og gista hér og þar, en er á leið heim í dag og verður sótt til Ellenar, samstarfskonu Mumma á morgun. Mummi skilar sér svo á fimmtudaginn.

Ég byrja aftur í skólanum eftir hálfan mánuð, á eftir góðan slurk af letistundum enn. Tímanum þessa dagana er eytt í lestur (með Kindlinum) og bíómyndagláp, það er sem sagt dönskukennarinn sem er að vinna þessa dagana, rólega þó.

Með allt á hælunum

Og hvað er þá betra að gera en að skella í eina bloggfærslu? Nú er botninum náð í leti og ómennsku, það gengur hvorki að græja jólin af neinu viti né að skrifa ritgerð af neinu viti. Að auki er tveggja daga frí framundan, við ætlum að fara í smá skrepp til Kaupmannahafnar, leggjum í hann með lest í bítið í fyrramálið og eyðum deginum á Strikinu og í Tívolí, mánudeginum væntanlega í dýragarðinum. Það á m.ö.o. að taka smá fjölskylduhygge á kostnað lærdóms og þrifa. Það hafa auðvitað komið smá jólatilþrif af og til, Strumpan spilaði á jólatónleikum á sunnudaginn var og það var auðvitað ljúft og hún spilaði eins og engill en fannst hálf spælandi að hafa bara foreldra og systur til að hlusta, auk þess sem hún hafði nú ekki náð að læra öll lögin sem voru spiluð og það fannst henni nokkuð glatað. Við gerðum heiðarlega tilraun til að labba í bæinn á eftir en Skottan var ekki í neinu stuði, svo það var snarhætt við. Við tókum Strumpuna í staðinn á smá jólarand í gær, fórum á jólamarkað og röltum í bænum áður en hún fór í tónlistarskólann og spilaði aftur, að þessu sinni einleik og einungis móðirin meðal áhorfenda. Á miðvikudaginn var líka jólastund í vistuninni, þar komum við öll og fengum eplaskífur og smákökur. Strumpan var mynduð í bak og fyrir með dýrunum enda var þetta síðasti dagurinn þarna.

Á fimmtudaginn fórum við í heimsókn í nýja skólann. Þar var vel tekið á móti okkur, bekkurinn afar ákafur að fá hana og hún leyst út með bekkjarmynd svo hún gæti farið að glöggva sig á nýju samnemendunum. Vistunin þarna er líka fín og ágætlega búin þó engin séu dýrin. Það er mikil áhersla á hreyfingu og meðal annars klifurveggur inni. Skólinn er gríðarlega vel settur, með eigin leikfimissali, hátíðarsal og sundlaug. Allar stofur með „smartboard“ og okkur var líka sýnd stofa sem er notuð þegar er verið að nota nýstárlegar kennsluaðferðir. Þar inni var lítið af húsgögnum og þau sem voru til staðar ekki hefðbundin. Á gólfinu var meðal annars motta með tölunum frá einum upp í hundrað til að hjálpa litlum grísum að læra þær. Strumpan byrjar strax eftir jól í nýja skólanum og er mjög spennt en saknar gamla gengisins líka.

Það eru líka breytingar í vændum hjá Skottunni, þó litlar séu. Það hafa verið tvíburasystkin með henni hjá dagmömmunni en nú eru þau að hætta svo það koma tvö ný börn inn í janúar. Þær verða bara tvær í næstu viku, hún og litla stýrið sem er með henni, svo það verður rólegt hjá þeim fram að jólum. Hún verður svo í fríi milli jóla og nýárs, svo hér verður mikið stuð.

Ég fór í leiðsagnarviðtal í gær, fékk stöðumat á litlu ritgerðina minni sem ég er komin langleiðina með. Var dauðkvíðin fyrirfram því mér fannst ég ekki hafa unnið hana nógu vel, sendi hana auk þess án þess að lesa hana almennilega yfir. Sem betur fer voru ekki stórir gallar og ég fékk góðar ábendingar hvernig ég gæti snurfusað hana svolítið. Ég afsakaði mig með því að það væri ansi langt síðan ég hefði skrifað svona verkefni síðast (reyndar hef ég aldrei unnið neitt sem er sambærilegt af neinu viti) en kennarinn hélt að þarna kæmi kennarabakgrunnurinn að góðum notum, miðað við að þetta var skipulega gert. Jamm, það er kannski ekki svo galinn bakgrunnur þó að það skorti á í öðrum fræðum.

Ferðalög og pestir

Við lögðumst í menningarferð til Randers á laugardaginn var. Hófum leikinn í Randers Regnskov til að nýta okkar góða ársmiða. Það var mikil sæla hjá dömunum, sú yngri sýndi jafnvel enn meiri áhuga en síðast. Í hverri ferð er eitthvað dýr sem við komumst nánast í snertingu við, í sumar var það api sem vappaði svo nálægt okkur að hann straukst við Strumpuna en núna var það eitthvað mauraætuafbrigði sem ákvað að það væri nauðsynlegt að hnusa af okkur, aðallega Mumma og Skottu. Eftir dýraskoðun var haldið í annars konar skoðun, svokallaða vöruskoðun. Hún fór fram í Randers storcenter og tókst svo vel að nokkrar vörur skiptu um hendur, ekki síst svokallaðar jólavörur. Það verður að segjast að það er býsna notalegt að krossa við á jólagjafalistanum svona snemma. Við uppgötvuðum nýjan áfangastað í Randers, þar er nefnilega hið danska Graceland. Ekki var það heimsótt í þessari ferð en stefnt er að því síðar. Bara af því að það er fyndið.

Við vorum varla komin inn úr dyrunum þegar Skottan brast í ælu. Mikill léttir að það skyldi ekki gerast í ferðinni en að öðru leyti tóm leiðindi eins og alltaf. Allir voru á tánum yfir að smitast og fundu reglulega draugaverki í maganum. Pestin stóð fram á mánudag og allir orðnir samdauna. Ég var ósköp fegin að daman náði heilsu í tæka tíð fyrir Kaupmannahafnarferð, henni var skóflað til dagmömmu á þriðjudag (að þessu sinni afleysingarmömmu sem olli skælandi barni við skilun) en þá var Mummi orðinn pestarpési. Hann hafði það  þó af að keyra eiginkonuna í rútu og hún skildi eftir lasarusana sína til að fara í skemmtiferð.

Í Kaupmannahöfn hitti ég þær stöllur Kristínu og Þórönnu. Við nýttum þriðjudaginn vel, gengum fyrst Strikið og síðan héldum við á Fiskitorgið. Ég var ekki í sérstakri verslunarþörf en náði þó að kaupa jólaföt á Strumpuna og á mig 🙂 en hafði að öðru leyti ekkert í atvinnumanninn sem eyddi drjúgum tíma í HogM. Sem betur fer var hægt að bíða í rólegheitum á kaffihúsi, mér leið svolítið eins og þreytta eiginmanninum í leit að sæti þegar ég var enn inni í búð. Eftir ósköpin var haldið á hótelið, mikil eftirvænting bjó um sig því þetta hótel var svolítið óvissuspil. Þarna er engin gestamóttaka, maður fær bara númer til að stimpla sig inn. Allt virkaði eins og það átti að gera, við komumst inn á herbergi og það leit vel út nema hvað herbergið var svona helmingi minna en það sem við höfðum séð á mynd (ég hélt að það væri gleiðlinsueffektinn en þetta var þá bara öðruvísi herbergi). Þar átti að vera kósístund með hvítvíni en enginn reyndist með tappatogara og við gáfumst upp á að opna flöskuna með öðrum leiðum. Enduðum kvöldið á Jensens bøfhus sem var einkar ánægjulegt, ekki síst dýrindis eftirréttur.

Á miðvikudeginum fórum við á ráðstefnuna sem bar yfirskriftina Hvorfor er dansk så svært. Hún fjallaði um stöðu dönskunnar sem samskiptamáti á Norðurlöndum. Hún var haldin á Norður-Atlantshafsbryggju í ævintýralega flottu húsi þar sem Vestur-Norðurlöndin hafa aðstöðu. Það var vel hugsað um okkur í mat og drykk og innleggin voru yfirleitt bæði skemmtileg og áhugaverð. Hins vegar var dagskráin býsna ströng og lauk ekki fyrr en um fimm. Þá héldum við heim á hótel (keyptum tappatogara á leiðinni) og slöppuðum aðeins af. Um kvöldið borðuðum við fyrst á Hard Rock og fórum þaðan í Tívolí – reyndar of seint og síðar meir, höfðum ekki áttað okkur á að það var bara opið til tíu, svo við höfðum bara hálftíma til að skoða. Það var óhemju flott að ganga þar um, að þessu sinni eru þeir með rússneskt þema sem kemur mjög skemmtilega út. Við náðum að versla aðeins meira og fengum svo náðarsamlegast að kaupa jólaglögg á Grøften þó að það væri búið að loka.

Ég kvaddi svo stöllur mínar á fimmtudag (með þunga tösku af jólagjöfum en hafði einnig náð að hrúga á þær líka) og sneri heim í hversdaginn og próflestur. Mín bíður próf á föstudaginn og það er ansans magn sem þarf að lesa. Ég sit við en sinni fjölskyldunni eftir megni líka. Þannig fórum við í julehygge í skólann Strumpunnar í dag. Þar föndruðum við (til dæmis hið klassíska jólahjarta) og fengum smákökur. Ég spjallaði við kennara Strumpunnar sem sagði að hún yrði sett í viðtal við sprogkonsulent í næstu viku til að meta stöðuna.

 

Félagslíf af áður óþekktri stærðargráðu

Það hefur eitt og annað á dagana drifið síðan síðast og ekki seinna vænna en að henda inn lítilli skýrslu. Frásögnin hefst fyrir hálfum mánuði þegar Óli Pálmi og Ellen, sem eru fyrrum vinnufélagar Mumma, litu inn. Það var mikið fjör og gaman, aðeins hægt að grípa í Þýskalandsvarninginn góða. Strumpan stóð sig eins og herforingi að tala dönsku við Ellen. Næsta dag kom Óli aftur, það verður að nýta vel þegar eru ferðalangar frá Íslandi hér í nágrenninu.

Á sunnudeginum fórum við í heimsókn til Viðars frænda sem býr í Beder, hinu megin í Árósum. Hann hafði hringt nokkrum dögum áður og ég bauð okkur að heimsækja hann af því að mig langaði að rúnta þangað. Beder er snotur smábær þar sem Gunnlaugur Starri hafði annan fótinn fyrir nokkrum árum, Erna hafði reyndar fast að því báða fætur þar, svona á milli þess sem hún rúntaði til Gunnlaugs í Kolding. Þetta er líka fallegasta leið að keyra því um stund er maður staddur í sveitinni, við keyrðum í skemmtilegri þoku. (Þær eru mun algengari hér en heima og afskaplega misfallegar og -skemmtilegar). Viðar frænda minn hef ég ekki séð í mörg ár og Mummi hefur aldrei hitt hann áður, eins og ég hef ekki hitt Sif hans Viðars áður. Þetta var prýðilegasti fjölskylduhittingur og auðvitað gaman að geta bæði deilt reynslu sinni af útlandinu og rætt fjölskylduna. Strumpan fékk líka félagsskap þar sem Viktoría Viðarsdóttir er á svipuðum aldri, Skottan fékk bara matarást á fimm ára frænda sínum sem sá um að hana skorti ekki kex.

Þremur dögum seinna fórum við í matarboð til Anne og Mads (til upprifjunar þá eru þau kennarahjón sem bjuggu í einn vetur á Íslandi, reyndar án þess að við kynntumst þeim en við skutum yfir þau skjólshúsi þegar þau áttu leið um Ak. fyrir tveimur árum). Þau búa líka í hinum endanum á Árósum svo við fengum aftur smá rúnt. Það stendur reyndar alltaf fyrir sínu, það er gaman að skoða ný hverfi.  Þau eiga sömuleiðis börn svo Strumpa lék sér við þau en Skotta fékk að njóta sín í nýju dóti, eins og reyndar í heimsókninni til Viðars. Þegar svo er þá verðum við nánast að skrifa á hendina á okkur að muna eftir að við eigum ekki bara eitt barn því það fer ekkert fyrir henni, ekki vandi á þeim bænum að fara í heimsókn. Við áttum góða stund hjá þeim og Mummi og Strumpan vöktu sérlega lukku fyrir að hafa bætt dönskukunnáttuna.

Um helgina lá leiðin til Skagen og eyddum við helginni í góðu yfirlæti hjá Kim og Bente. Við tókum því reyndar óvenju rólega, litum í bæinn á laugardeginum og fórum í heimsókn til Leif og Bente (sem eins og Anne og Mads eru vinir sem við erum að erfa frá Kristínu og Árna Hrólfi) auk þess að fara í göngutúr á ströndina á sunnudagsmorgni. Stelpurnar voru yfir sig ánægðar, hundur á báðum heimilum, annar þó öllu rólegri en hinn … Aftur fengu Mummi og Strumpan hól fyrir dönskukunnáttu enda var daman búin að bíða eftir að geta talað við þau síðan hún hitti þau fyrst og það er óhætt að segja að hún hafi látið til sín taka. Mummi hefur fram að þessu alltaf talað ensku við þau en talaði bara dönsku núna og fór létt með. Þannig fór helgin bara í át og samveru, eins og tilhneigingin hefur verið þegar við förum á þessar slóðir. Vigtin sagði sína sögu við heimkomu. Við horfðum reyndar á frábæran sjónvarpsþátt á laugardagskvöldið, ég hef ekki hlegið svona mikið í langan tíma. Þetta var enn einn raunveruleikaþátturinn og gekk út á að dáleiða fólk og láta það gera eitt og annað. Allt innan velsæmismarka samt. Sem dæmi má nefna að einn ungur maður, svona greinilega af góðum efnum, Norður-Sjálandstýpa í lögfræði, var látinn synda í pínulítilli laug innan um uppblásna hákarla sem honum var talin trú um að væru höfrungar. Hann náði þessu líka fína sambandi við höfrungana, var í lokin látinn halda að hann væri höfrungur og fékk sardínu að launum fyrir að sýna flott brögð.  Sem betur fer ekkert undir beltisstað, meira svona græskulaust gaman.

Á mánudaginn var fór Strumpan í sinn fyrsta fiðlutíma eftir langt hlé. Nýi kennarinn hennar heitir Mads og var afar viðkunnanlegur. Tímarnir eru í Læssøgadeskole sem er ágætt eins og er, en verður alvöru rúntur þegar hún flytur um set. Hún á líka að fara í hóptíma svo það bíður heilmikill rúntur. Það verða jólatónleikar eftir tvær vikur svo það er byrjað af hörku, hún átti að læra heima að spila Heims um ból og Í Betlehem er barn oss fætt, við gerðum það þannig að ég glamraði það á píanó til að hún lærði laglínuna og síðan þreifaði hún sig áfram með fiðluna og var ekki lengi að. Í gær var síðan fyrsti tíminn hennar í íslenskuskólanum, enn eitt sem kallar á keyrslu … ég ætla aðeins að gefa því séns en það byrjaði frekar rólega, tíminn fór allur í föndur og spil og næst á að búa til brjóstsykur (eða brjóstsyk eins og kennarinn sagði, hmmm.) Ég veit ekki hvort ég nenni að standa í þessari keyrslu ef hún verður ekkert að sinna íslenskunámi, svo miklar áhyggjur hef ég nú ekki af því hvernig hún stendur (þó hún segi að hún komi for sent og það sé ekki mikið eftir tilbaka af einhverju 🙂 ).

Í dag fór ég í síðasta tímann á önninni, svona af því að ég ætla nú að skrópa í næstu viku til að fara á ráðstefnu til Kaupmannahafnar. Þá er næst að bretta upp ermar og fara að vinna eitthvað, það bíða tvær ritgerðir og eitt próf. Það er skrýtin tilfinning að tímarnir verði ekki fleiri enda verður næsta önn bara með einum venjulegum áfanga. Sá mun snúast um aðferðir við rannsóknir ef ég hef skilið rétt en að öðru leyti fer önnin í að vinna stórt rannsóknarverkefni (held ég). Mummi var líka í sínum síðasta tíma í dag en það er reyndar af því að hann ætlar að hafa meiri tíma til að sinna verkinu sem hann er að vinna fyrir Ellen. Það er tímafrekt að fara í skólann með, hann hefur tekið um fimm tíma á dag með ferðum. Enda er það búið að sanna sig að hann er orðinn fúllbefær og getur því alveg útskrifað sjálfan sig. Við vitum hins vegar ekki hvernig fer með skólaflutninga hjá Strumpunni en ég er að hugsa um að senda póst á kennarann og ýta við henni. Óttast bara að þau vilji ekki missa hana 😉 .

 

Smá bónusfærsla

Hendi inn til gamans bréfi sem ég sendi á samstarfsfólk mitt …

Sæl öll

Ákvað að senda á ykkur línu til að láta vita hvernig mér reiðir af á nýjum slóðum. Einhverjir halda jafnvel að ég muni ekki snúa aftur þegar ég loks er komin til fyrirheitna landsins. Það er ekki fjarri lagi. Ég þykist vera orðin nokkuð dönsk, hálfdönsk að minnsta kosti og gott ef ég nálgast það ekki að verða nýdönsk. Ég hef verið til fyrirmyndar sem innflytjandi, keypti strax á fyrstu dögunum hjól handa öllum hjólfærum í fjölskyldunni og hjólakerru handa litla prikinu. Þess má geta að við höfum ekki hjólað okkur til óbóta heima, sem dæmi held ég að það hafi verið komin ein þrjú ár síðan ég hjólaði síðast þar. Ég verð þó að viðurkenna að við erum enn á amatöra-stiginu. Gamlar konur taka fram úr okkur þegar við erum á fjölskyldurúntinum og þó að ég haldi í við þær þegar ég hjóla ein þá er það ekki beinlínis daglegur viðburður að stíga á hjólið.

Það má reyndar segja að ég hjóli alltaf í skólann þegar viðrar til þess og ég þarf ekki að mæta ókristilega snemma, í allt eru það líklega ein fjögur skipti. Ég vek reyndar aðdáun samnemenda minna þegar ég hjóla, því þetta eru þó um 8 kílómetrar hvor leið og síðasti spölurinn upp að háskóla er ansi hreint brattur, það er ekki laust við að mér finnist ég vera í Ölpunum svo ég skammast mín lítið að þurfa að hoppa af og leiða hjólið smá spöl. Eins og gefur að skilja fylgir síðan svitakóf mikið, ég þarf bæði að vera tímalega til að ná að klára að svitna og svo þarf ég heilgalla til að skipta um föt. Af þessu má sjá að hjólreiðunum fylgir talsvert umstang.

Þá sjaldan ég hjóla ekki í skólann tek ég strætó. Bý svo vel að geta valið um 6 leiðir sem eru í 5 mínútna radíus og allar fara þær bæði að háskólanum og í miðbæinn, þægilegra getur það ekki verið. Ég gerði einu sinni þau mistök að keyra, af því að ég þurfti að koma eldri dótturinni til tannlæknis og það olli bara kvíða og stressi því það eru engin stæði að ráði við skólann, ég fylgdi reyndar bara ráði heimamanna og lagði ólöglega. Ekki langar mig til að endurtaka þetta.

Af skólanum er flest ágætt að frétta. Ég hef tekið nýja stefnu sem námsmaður og mæti núna undirbúin í tíma. Það virðist skila nokkrum árangri, mér hefur gengið þokkalega að fylgjast með og vera með á nótunum (svona eftir að ég náði sæmilegum áttum í enskunni). Námið er mjög áhugavert, ég sé ekki betur en ég verði vel í stakk búin til að kenna á nýrri tungumála- og félagsgreinalínu. Þetta er nokkurs konar bræðingur af mannfræði, stjórnmálafræði og þjóðfræði, með smá hliðarhoppum í heimspeki- og félagsfræðikenningar. Það sem kemur mér helst á óvart er að ég hef gaman af áfanganum sem fjallar um ESB, fram að þessu hefur það ekki verið sérstakt áhugamál mitt.

Stærsti gallinn við námið er sá að ég hef verið svolítið týnd í öllu talinu um hinar og þessar kenningarnar og hvernig maður beitir þeim, en mér finnst eins og það sé ögn að birta til, geng ekki svo langt að segja að ég hafi séð ljósið, það má kannski frekar segja að ég sjái bregða fyrir kertaloga. Rétta áttin, hverju sem öðru líður. Kennararnir mínir eru miklir áhugamenn um hópvinnu og það líður nánast ekki sá tími að við séum ekki sett í hópverkefni. Þetta á að hvetja okkur til að mæta vel undirbúin svo við bregðumst ekki samnemendum okkar og kannski svo þetta sé ekki bara eintal kennarans. Mér finnst þetta vera nokkuð mikið af hinu góða, eftir sem áður er það mest sama fólkið sem talar í hópunum. Við höfum að auki þurft að vinna hópverkefni sem við kynnum í tímum og það er ekki laust við að hér komi bakgrunnurinn sér vel, mér finnst lítið mál að tala fyrir framan bekkinn en veit að margir kvíða fyrir þegar það bíður þeirra. Nú styttist í prófin, ég tek eitt skriflegt próf og skila tveimur ritgerðum, því miður í janúar svo ég sé ekki fram á að desember verði neinn alsælumánuður í dúlleríi fyrir jólin.

En víkjum aftur að aðlöguninni. Ég fór í menningarferð til Þýskalands um síðustu helgi. Keyrði nokkra kílómetra yfir landamærin (eldri daman sat aftur í og beið eftir að það gerðist eitthvað), fann risastóra verslun og keypti bjór, vín og gos eins og enginn væri morgundagurinn. Eða kannski eins og það væru margir morgundagar, ég hef aldrei átt svona mikið af áfengi áður svo það veitir ekkert af lengra lífi til að drekka þessi ósköp. Þrátt fyrir þessi miklu innkaup eigum við enn eftir svolítið í land með að verða aldönsk, okkar stafli var eins við værum að kaupa til vikunnar, miðað við það sem á gekk í kringum okkur. Enda dugði þetta skammt, í dag keyptum við meiri bjór (þó ekki sjáist mikið á birgðunum) og eigum núna þrjár tegundir af jólabjór og förum þá að verða nokkuð vel sett.

Talandi um að kaupa fyrir vikuna, þá höfum við líka reynt að læra það af innfæddum að fara ekki í búð á hverjum degi. Þetta var búið að vera svolítið kvíðaefni fyrir flutninga, hvernig á maður að fara að í landi þar sem búðir eru lokaðar á sunnudögum? Áfallið reyndist nokkuð minna en við höfðum séð fyrir okkur. Bæði erum við svo vel í sveit sett að í 200 metra fjarlægð er prýðisbúð sem er opin alla daga, langt fram á kvöld. Hins vegar virðist nýja trendið hér vera að hafa opið fyrsta og síðasta sunnudag í mánuði svo þetta er ekki eins alvarlegt og við bjuggumst við. Þrátt fyrir þetta góða aðgengi höfum við tekið okkur verulega á og ákveðum helst hvað á að vera í matinn næstu tvo daga, mikil framför frá því að ákveða klukkan sex hvað á að vera í kvöldmatinn.

Í dönskum anda erum við líka dugleg að elta tilboð. Morgunjógúrtin mín er til dæmis alltaf á tilboði í einhverri búðinni, svo hana kaupi ég sjaldnast á fullu verði. Verra er með bensínið. Verðið á því sveiflast mikið og er allt frá því að vera 10.5 – 12.5 krónur líterinn. Það segir sig sjálft að maður kaupir helst ekki bensín ef verðið er í efri mörkunum og er alltaf með augum á verðskiltunum þegar maður keyrir um. Ég hef komist að því að bensínið er að jafnaði ódýrast á morgnana og sendi eiginmanninum sms og rek hann í bensínkaup ef ég sé hagstætt verð. Samt nagar kvíðinn og maður lifir í stöðugum ótta að kannski verði bensínið ódýrara á morgun. Það er vandlifað.

Af almennri aðlögun fjölskyldunnar er sömuleiðis fátt nema gott eitt að segja. Stóra daman er í móttökubekk, þarf reyndar að fara um 10 kílómetra í skólann og er keyrð til og frá í leigubíl. Bílstjórarnir eru ekki öfundsverðir af hlutskiptinu, því ég efast um að hún leggi munninn aftur á leiðinni. Hún veit orðið margt um þeirra einkahagi og nýjasta sagan var að hún lagði línurnar um hvað 12 bræður hennar ættu að heita (sem hana dreymir um, ekki að þeir séu væntanlegir). Eins og gefur að skilja gengur henni ágætlega með dönskuna og tekur óhikað þátt í samræðum. Hana skortir að minnsta kosti ekki sjálfsöryggið.

Sú stutta er hjá dagmömmu hér skammt frá. Við göngum þangað og ef stuttu fæturnir fá að bera sig sjálfir getur fimm mínútna túr auðveldlega orðið 40 mínútna túr því það er að mörgu að hyggja á leiðinni. Við göngum yfir sjálfa Eg-ána, sem er endalaust uppspretta gleði. Ég hætti ekki að furða mig á hægu rennsli hennar. Ef maður mælir óvísindalega hvað laufblað fer hratt yfir þá eru það svona 3 sentimetrar á sekúndu. Stundum finnst mér jafnvel að áin renni upp í mót. Þetta er fallegt umhverfi og gaman að ganga þessa leið. Litlu dömunni gengur sömuleiðis vel í dönskunni. Hún kann að segja leverpostej (sem hlýtur að teljast grundvallaratriði) og min duddi (= min sut) og það er voða krúttlegt þegar koma dönsk orð úr þessu litla munni.

Eiginmaðurinn er líka í dönskunámi og líkar ágætlega. Honum finnst þó full mikil áhersla á málfræði, ekki síst í ljósi þess að þetta er ekki flókin málfræði og svo leiðist honum þegar kennararnir sýna bíómyndir og velja myndir uppfullar af drama. Þannig skrópaði hann um daginn af því að hann nennti ekki að horfa á Pelle Erobreren og eiginkonan er afar hneyksluð á því að láta svona meistarastykki fram hjá sér fara.

Jæja, látum gott heita í bili. Ég sakna MA óskaplega og þrátt fyrir varnaðarorð Jónasar skoða ég tölvupóstinn minn oft í viku til að fylgjast með hvað er á seyði. Bið að heilsa.

Hafdís

PS Til Jónasar ef þú hefur enst svona lengi – fórum loks í pílagrímsferðina miklu að skoða gömlu heimkynni þín. Þorðum ekki að gera langt stopp til að góna á húsið af því að það voru íbúar fyrir utan en þetta leit hlýlega út og gatan hin notalegasta. Hjóluðum til baka meðfram Egánni, höfðum ekki tekið stíginn frá höfninni áður og hann var alveg frábær. Skemmtileg blanda af ríkisbubbahöllum og fátækrahreysum þarna við Strandhusvej. Og ég lýsi yfir miklum stuðningi við vorferðina til Danmerkur 🙂

Helgardagskrá

Þá er helgin að verða liðin án þess að við höfum nokkuð farið til útlanda. Ákváðum að leika túrista í Árósum í staðinn og fórum með strætó í gær niður í miðbæ, til að sleppa við að borga formúu í bílastæðagjöld og til að gleðja Skottuna. Það stóð heima, hún var alsæl í strætó nema hvað það var mjög óforskammað af foreldrunum að leyfa henni ekki að fara um allt eins og hún vildi. Við röltum síðan um í bænum, fórum hinar og þessar götur sem við höfum ekki farið áður og sérstaklega fannst okkur göturnar í elsta hlutanum vera sjarmerandi. Gömul hús og þröng húsasund, það er eitthvað svo sjarmerandi. Fórum á kaffihús og fengum okkur tertur og héldum svo áfram göngunni. Slysuðumst inn í tvær verslanir í leit að íslensku nammi (sem ég var þó búin að finna í Irmu á föstudaginn), fórum annars vegar í Magasin og þar var auðvitað skemmtilegt að vera en hefði getað verið skemmtilegra kerru- og barnlaus … Fengum svolítið nammi þar, litum síðan líka inn í Tiger og þar sáum við ekkert nema Ópal og keyptum það ekki. Endaði svo á því að kaupa brenndar möndlur og ég og Skottan gúffuðum þeim í okkur á methraða.

Í dag ákáðum við að halda í smá pílagrímsferð og fórum á tveimur fljótari (s.s hjólandi) að skoða gamlar slóðir Jónasar (jarðfræðikennara, ekki nafna hans Hallgrímssonar). Sáum hvar hann bjó hér um árið og hjóluðum svo meðfram ánni, áttum eftir að fara svolítinn stíg þar og það var ekki galið, húsin þar ýmist svaðalegar villur eða smá húskofar (sem tilheyra sennilega upprunalegum íbúum). Þaðan fórum við í búðina og þegar upp var staðið var þetta rúntur upp á tæpa 8 kílómetra, ágætlega af sér vikið enda höfum við verið í lata gírnum undanfarið og ekki hjólað mikið. Skottan er líka alsæl með þennan ferðamáta og mátti varla vera að því að fara úr kerrunni til að gefa öndunum á Egánni brauð. Svo dagskráin í dag hefur verið með allra besta móti fyrir hana – og versnaði ekki þegar verslunarferðin var búin og í farteskinu eitt stykki terta 🙂 Í kvöld á svo að láta reyna á útlenska lambakjötið, keyptum innanlæri af nýsjálensku, verður fróðlegt að prófa það. Við gripum reyndar tvær sneiðar af kálfakjöti svona til að hafa á kantinum til vara…

Þær systur voru mældar í morgun. Strumpan orðin 137 sentimetrar og 30,7 kíló, Skottan aftur á móti um 86 sentimetrar og 11,3 kíló. Ég man ekki sambærilegar tölur fyrir Strumpuna en rámar í að hún hafi verið lægri, byggt á þeirri kenningu að þegar maður er tveggja ára hafi maður náð helmingi af endanlegri hæð (ok, kenningin er væntanlega rugl, amk eru strákar venjulega ekki hærri en stelpur á þessum aldri, kannski gildir þetta bara um stelpur 🙂 en sem sagt finnst mér eins og tala Strumpunnar hafi bent til þess að hún yrði um 165 sentimetrar. Ég sagði henni að það væri hefð fyrir því að eldri systur væru lægri en yngri systur. Það gildir alla vega í eina tilfellinu sem skiptir máli, þ.e.a.s. hjá mér og Önnu 🙂

Svo fór ég í krabbameinsskoðun á föstudaginn, um að gera að nota tækifærið þegar maður fær það fríkeypis. Það var ekkert klefadæmi að fara í slopp hér, bara vesgú og klæddu þig úr á meðan ég set upp hanska. Ég tók þessu með stóískri ró enda alvön og hafði  líka í huga að þetta væri að minnsta kosti ekki Orri, bara einhver Søren sem ég myndi ekki þekkja aftur þó ég sæi hann úti í búð.