Almennilegur sjálfstæðismaður

Ég var að ná í Eygló á bókasafnið þar sem hún vinnur (furðuleg þessi árátta að vanhelga bókasöfn með að byggja kirkjur oná þau). Þar rakst ég á bók sem ég kíkti strax í, hún heitir Þeir máluðu bæinn rauðann og fjallar um vinstri hreyfinguna á Norðfirði. Ég gluggaði í nafnaskránna og fann Reyni Zoëga sem er afi Eyglóar.

Reynir er ekki í bókinni af því hann deilir stjórnmálaskoðunum okkar Eyglóar heldur af því að hann var í bæjarstjórn á Norðfirði í mörg ár fyrir Sjálfsstæðisflokkinn. Þar sem minnst er á hann er sagt að hann hafi verið einstaklega samkvæmur sjálfum sér að því leyti að hann studdi mál meirihlutans ef honum þótti málið gott. Hann var víst ekki vinsæll fyrir þetta meðal flokksfélaga sinna og jafnvel kallaður sjötti maður Alþýðubandalagsins í bæjarstjórn. Þetta er afskaplega skemmtilegt og mjög ólíkt stjórnarandstöðustílnum sem Davíð Oddsson þróaði með sér í borgarstjórn og Guðlaugur Þór (Sori) hefur notað mikið, það er vera á móti öllu sem kemur frá meirihlutanum.

Annars má geta þess að Reynir sá einu sinni mynd af mér í Chebolnum mínum og lét þess getið að honum finndist Che enginn hetja og frekar væri við hæfi að ganga í bol með mynd af Ólafi Thors. Það er einmitt á stefnunni hjá okkur Eygló að gefa Reyni bol með mynd af Ólafi.