Skíthæll með vákort

Þegar ég var nýbyrjaður í búðinni í fyrra þá lenti ég í ömurlegum viðskiptavini, hann var svo góður með sig, svo dónalegur og talaði svo niður til mín að það var hrikalegt. Þessi spjátrungur vildi að við myndum sleppa því að strauja kortið sitt og slá upplýsingarnar inn handvirkt seinna vegna þess að hann var ekki viss um að hann gæti notað straumbreytinn sem hann var að kaupa. Þetta var samþykkt af yfirmönnum mínum enda leit durgurinn virðulega út, klæddur í úrvals uppaföt.

Svona viku seinna voru upplýsingarnar slegnar inn í posann en þá kom upp “Vákort, gerið upptækt” (líklega ekki nákvæmt orðalag). Nú höfðum við undirskrift mannsins á gamaldags straujaðri nótu sem við höfðum gert en hún var ógreinileg og nótan hafði straujast illa þannig að nafnið var ógreinilegt. Kortið var einnig erlent þannig að það er ekki víst það hefði dugað að hringja í banka hérlendis.

Nú vildi hins vegar svo heppilega til að ég mundi að mér fannst ég kannast við dólginn. Ég fór á netið og fann allar upplýsingar um hann enda hefur hann tekið nokkuð mikinn þátt í ungliðastarfi eins stjórnmálaflokksins, fann mynd sem staðfesti gruninn. Baldur sem var þá að vinna í búðinni hringdi síðan í kauða, gerði hann alveg dauðhræddan með hótunum og fékk síðan gilt kortanúmer. Aulinn sagði að þetta hefði verið alveg óvart.

Boðskapur þessarar sögu er að ég hefði ekki munað jafnvel eftir fíflinu ef hann hefði ekki verið með yfirgang og dónaskap, það varð honum að falli.