Marx, Marx og Queen

Fór niður í 2001 og lét taka frá fyrir mig Live at Wembley dvd diskinn með Queen sem er væntanlegur þangað í næstu viku. Hann er líka miklu ódýrari þar en í Skífunni.

Eftir það fórum við á bókasafnið að leita að Harpo Speaks eftir/um Harpo Marx. Ég vildi leita í kvikmyndadeildinni en Eygló vildi fara í ævisögudeildina. Ekki fannst Harpo í ævisögudeildinni (þar hefði hann kúrað í milli Groucho og Karls (góður félagsskapur það)) en þar var hins vegar að finna bók með bréfum Groucho bróður hans til dóttur sinnar. Við fórum síðan að spyrja um bókina en meðan Eygló beið eftir aðstoð fór ég í kvikmyndadeildina og fann Harpo. Haldið þið að ég hafi ekki verið montinn, Eygló er nú búin að læra flokkun og er að vinna á bókasafni. Hér er þó aðallega um að ræða að ég hef áður tekið bækur úr þessari deild og þekki því kerfið.

Nú skal tekið á því og farið að sofa. Vakna í kvöld, jafnvel fyrr.