Snögg ferð til að hitta ömmu

Ég fór norður til að hitta ömmu mína sem er veik. Örugglega ekkert fyrir þá sem eru mér óskyldir eða þá sem hafa ekki hitt ömmu.

Þegar ég kom heim úr vinnunni í gærkvöldi þá sagði Eygló mér að Hafdís hefði hringt. Ég hringdi í Hafdísi og hún sagði mér að amma okkar væri búin að vera á spítala síðan á laugardag og það hefði komið í ljós að hún væri með krabbamein í ristli. Hafdís sagði mér að það ætti að skera hana upp á miðvikudag.

Ég talaði við Eygló og við skoðuðum hvenær væri flogið en þegar Eygló sagði mér að hún vildi helst koma með ákváðum við bara að hoppa upp bíl og keyra norður. Við komum til Akureyrar klukkan hálffjögur um nóttina, á leiðinni sáum við mögnuð sólarlög (fleirtalan er þörf hér) og einnig stórkostlegar sólarupprásir.

Við komum við í 10-11 sem er opin allan sólarhringinn á Akureyri og fær meiraðsegja að vera opin í friði á Hvítasunnudag.

Við vöknuðum snemma til að fá frí frá vinnu, það var ekkert mál. Við höfðum samband við sjúkrahúsið til að vita hvort við gætum fengið að koma utan heimsóknartíma og það var auðsótt. Þegar við komum var amma í baði þannig að við sátum út á svölum í sólinni þar til hún kom aftur.

Það var gott að sjá ömmu því hún var hress og jákvæð einsog hún er alltaf. Við spjölluðum í dáltinn tíma en fórum síðan í þann mund sem hún var að fara í myndatöku.

Næst fórum við niður í bæ, ég fékk mér anísstykki frá Kristjánsbakarí en Eygló fékk sér einhverja óspennandi samloku. Við fórum síðan heim til Hafdísar og ég fór að sofa.

Við fórum aftur á spítalann klukkan hálffjögur og þar voru fyrir Gylfi, Helga og Gummi, síðan komu Hafdís og Sóley og þar á eftir Ella nágranni úr Stekkjargerðinu. Starri og Haukur hringdu síðan báðir í heimsóknartímanum þannig að það amma var svo sannarlega ekki ein.
Eftir stoppið fórum við bara beint af stað suður, stoppuðum í bústaðnum hjá Gunnsteini, Ástu og Ástu Hönnu í mat, vorum komin heim rétt eftir klukkan níu. Undarleg tilhugsun að hafa verið innan við sólahring í burtu.

Á leiðinni suður heyrðum við líka að Anna systir er að koma frá Svíþjóð á föstudag og ætlar að stoppa í viku, hún á reyndar með pantað far í ágúst og þá kemur Haval loksins með henni. Haval hefur ekki komið síðan 1994 ef ég man rétt (sem er ekkert víst).

Á morgun fer amma í aðgerð og ég veit ekkert hvað gerist, hún hress miðað við að hún er níræð og það er erfitt að ímynda sér að nokkuð geti komið fyrir þessa jákvæðu og hressu manneskju. Hún er hjartveik fyrir og svona aðgerðir hljóta alltaf að vera hættulegar fyrir svona gamalt fólk. Ég veit ekkert.