Geimferð:Hreyfimyndin

Ég hef ákveðið að horfa á allar Star Trek myndirnar. Fyrst í röðinni er fyrsta myndin, hún heitir Star Trek:The Motion Picture. Hún gerist um 10 árum eftir að fyrstu þáttaröðinni lauk, Kirk er orðinn háttsettur innan StarFleet og Spock er að reyna að hreinsa burt allar tilfinningar sínar.

Fyrsti hluti myndarinnar fer í að koma þeim og öðrum persónum inn í atburðarásina. Þetta gerir þann sem var að taka við stjórn Enterprise ekki glaðan en það er leikarinn Stephen Collins sem ég man eftir úr þáttaröðinni Tales of the Gold Monkey. Efast um að nokkur muni eftir þeirri þáttaröð nema ég, það var svalur Japani þarna sem aðalóvinur í þjónustu einhverrar prinsessu, þetta kemur Star Trek ekkert við.

Stórt ský er á leið til Jarðar og það virðist vera fúlt, Enterprise fer af stað til að stoppa það. Eyðilegg söguþráðinn ekki frekar.

Myndin eyðir óhemjutíma í að sýna okkur þessar frábæru tæknibrellur. Það virkaði kannski 1979 en rúmlega 20 árum seinna er búið að gera þetta allt þúsund sinnum betur þannig að það mætti gera stytta útgáfu af myndinni án þeirra.

Búningarnir í þessari mynd eru þröngir og virðast vera gerðir til að sýna að Shatner er svoltið buff á þessum tíma. Sem minnir mig á að William Shatner er arfaslæmur leikari. Reyndar eru fáir leikarar í þessari mynd sem eru góðir.