Miðlar og morð

Þetta er alveg ótrúlegt, danska löggan náði þessum morðingja þarna án þess að fá hjálp frá íslenska miðlinum sem flaug alla leið til Danmerkur til að hjálpa þeim. Þvílíkt tillitsleysi, miðillinn hefði getað orðið frægur! Nema náttúrulega hann hafi ekki haft rétta manninn grunaðan… Sem ég er reyndar alveg viss um. Þessi rugludallur fór allaleið til Danmerkur til að trufla lögreglurannsókn. Þetta er eitt helsta vandamálið sem kemur upp þegar er verið að rannsaka mál sem vekja mikla athygli, þetta vekur upp alla rugludalla sem vilja athygli, allir vilja verða hetjur.

Er ekki stutt síðan að einhver annar Íslendingur hélt því fram að hann hefði einhverjar upplýsingar um eitthvað svona mál (morðið á stelpunum í Bretlandi í fyrra?) sem vakti mikla athygli? Síðan hvetja íslenskir fjölmiðlar þetta fólk áfram með því að veita því athyglina sem það þráir. Ég held að í kjölfar þessa þá haldi íslenskir rugludallar áfram að trufla lögreglurannsóknir sem vekja mikla athygli og hjálpi þar með raunverulegu glæpamönnunum að sleppa.

Í gær var síðan einhver miðill á Rás 2 að tala um þetta, hann sagði að lögreglan í Svíþjóð og Bretlandi notaði miðla (takið eftir að ég nota aldrei orðið falsmiðill því ég tel að slíkt þurfi ekki að taka fram (hvort sem miðlarnir sjálfir trúa eigin rugli)) eins og hvert annað tól. Ég leyfi mér að efast. Einu skiptin sem ég hef heyrt um að lögregla hafi notað miðla er þegar ekkert gengur og allt er glatað. En umsjónarmennirnir þáttarins á Rás 2 héldu varla vatni yfir því hvað þetta var spennandi og manni fannst einsog þeir vildi að íslenska lögreglan hefði bara miðil á launaskrá hjá sér.

Síðan eru einhverjir sem halda því fram að miðlar hafi einhvern tíman getað hjálpað lögreglunni. Ég tel að það geti verið en það er ekki vegna einhverra dulrænna hæfileika. Segjum að þú vitir eitthvað um glæpamál en viljir ekki koma fram undir réttu nafni þá er einfalt að tala við einhvern miðil sem vill athygli. Miðillinn stekkur fram og upplýsir lögregluna (eða fjölmiðla) um einhverja sýn sem hann fékk um málið og Bingó! Raunverulegur árangur, falskar aðferðir. Ef miðill getur hjálpað við lögreglurannsókn þá er réttast að yfirheyra hann ítarlega um hvaðan hann fékk upplýsingarnar því það var ekki frá vasaljósinu góða í Himnaríki.