Star Trek – Yfirlit

To boldly go where no man has gone before
Gene Roddenberry skapaði Star Trek heiminn, ein helsta hugsjón hans í þessu sambandi var að skapa framtíðarheim þar sem trúarbrögð væru ekki til (allavega ekki hjá Jarðarbúum (eða homo sapiens sapiens til að hafa þetta nákvæmt)). Þessi hugsjón hefur reyndar verið töluvert svikin síðan hann dó og það er vissulega miður. En hugum að byrjuninni.

Upphaflegu Star Trek serían var ekki alltaf glæsileg enda vantaði fjármagn. Til að byrja með gekk hún út á það að í hverri viku var Kirk geislað niður (því þeir höfðu ekki efni á tæknibrellum sem fylgja lendingu geimskipa) á nýja plánetu (sem var alltaf sama pláneta með nýrri litasíu fyrir myndavélinni) og endaði á stað sem minnti grunsamlega mikið á San Francisco. Þarna leysti Kirk vandamálin. Ég hef reyndar ekki séð þetta sjálfur.

Í seríunni sem hófst 1966 og gekk í þrjú ár sást líka önnur hugsjón Roddenberry, algert jafnrétti mun ríkja í framtíðinni. Þetta var líklega fyrsta sjónvarpsserían í Bandaríkjunum þar sem svört kona (Uhura) var í hlutverki sem jafningi, ekki sem þjónustustúlka eða matreiðslukona. Whoopi Goldberg hefur sagt frá því að þetta hafi verið henni mikill innblástur. Annað sögulegt atriði var í upphaflegu seríunni var þegar fyrsti koss hvíts karlmanns og svartrar konu í bandarísku sjónvarpi. Það er reyndar skondið að upphaflega átti Spock að kyssa Uhura en William Shatner áttaði sig á sögulegu gildi þessa atriðis og heimtaði að Kirk myndi kyssa hana.

Fyrsta Star Trek myndin kom í kjölfar þess að það átti að gera nýja þáttaröð, það var árið 1979 og tíunda myndin kom út í fyrra.

Fyrsta “spin-off” serían kom árið 1987 þar sem áhöfn Picards (Patric Stewart) varð The Next Generation cirka 75 árum eftir að upphaflega serían hófst.

Árið 1993 kom Deep Space Nine sem gerist á svipuðum tíma og TNG, þessa seríu ættu íslenskir sjónvarpsáhorfendur að kannast við einsog þær seríur sem fylgdu.

Í kjölfarið kom Voyager árið 1995, sú þáttaröð gerist á sama tíma en færir okkur á annan stað í alheiminum.

Nú síðast kom þáttaröðin Enterprise árið 2001 sem gerist um 115 árum fyrir atburði fyrstu seríunnar, kemur reyndar frekar mikið í kjölfar myndarinnar First Contact.

Ég hef alltaf á tilfinningunni að þú getir ekki notið Star Trek nema að þú hafir húmor fyrir fáránleika þessa heims. Eitt uppáhaldið mitt er hið síendurtekna (allavega í þáttunum) atriði þegar nokkrar aðalpersónur fara niður á einhverja plánetu með einhverju áhafnarmeðlimum sem áhorfendur hafa aldrei séð en aðalpersónurnar þekkja með nafni. Lífslíkur þessara óþekktu skipverja eru ekki miklar, oft eru þeir aðallega með til þess að sýna að skipverjarnir eru ekki ódrepandi (nema aðalpersónurnar (nema þegar leikararnir eru að hætta í seríunni)). Alltaf gaman.

Nú fer ég að horfa á upphaflegu seríuna bráðum og ég mun birta álit mitt á henni að einhverju leyti, hvort ég gerist svo grófur að birta dóm um hvern þátt efast ég um en hver veit? Kannski ég birti bara almennan dóm um hvert ár í seríunni fyrir sig. Eftir að upphaflegu seríunni líkur mun ég hefjast handa við The Next Generation sem margir telja þá bestu.

Live Long and Prosper.