Trú eða trúarbrögð

Hér neðar er athugasemd við færslu minni um trúlausa danska prestinn þar sem því er haldið fram að það geti verið að trúarbrögð séu slæm en trú sé það ekki. Ég get ekki samþykkt það. Vissulega eru skipulögð trúarbrögð mun verri en það er aðallega vegna fjöldans. Nú er kannski réttast að útskýra hvernig ég skilgreini trú.

Trú er það að telja að eitthvað sem telst yfirnáttúrulegt sé raunverulega til (þetta gæti þurft að útskýrast nánar). Trú getur verið trú á guð, trú á drauga, trú á jólasveininn og trú á álfa. Kannski að einhverjir séu ósáttir við hvernig ég flokka þetta en mér er sama.

Mér finnst reyndar rétt að taka fram að trú barna á jólasveininn er ekki jafn heimskuleg og trú á guð enda fá börnin reglulega sannanir fyrir tilvist jólasveinsins og þau eru yfirleitt of heimsk til að skilja að það er verið að ljúga að þeim. Þeir sem trúa á guð hafa engar afsakanir. Hugsanlega er rétt að benda á hvað er sameiginlegt með trú á guð og jólasveininn (því í raun er jólasveininn bara birtingarmynd guðs). Guð og jólasveininn eru hvíthærðir, hvítskeggjaðir kallar (föðurímynd) sem refsa okkur ef við erum vond en verðlauna okkur ef við erum góð. Hver er raunverulega munurinn?
Hvað er síðan slæmt við trú á jólasveininn? Trú á jólasveininn er slæm á mjög svipað hátt og trú á guð. Þessi trú gefur okkur rangar hugmyndir um hvers vegna við ættum að vera góð (til að fá verðlaun). Jólasveininn og guð eru báðir notaðir sem stjórntæki yfirvalda (foreldra) á almúganum (barna, kannski heimskulegt að taka þetta fram). Það að gera hið rétta og að vera “góður” á ekki vera byggt á ótta við refsingu eða von um verðlaun. Góðverk kristinna manna eru að mínu mati ekki jafn mikils virði og góðverk þeirra sem eru trúlausir vegna þess að ég efast ekki um tilgang hinna trúlausu.

Hvað er þá að því að einhver einn maður hafi sínar einkahugmyndir um guð sem ekki eru í raun hluti af skipulögðum trúarbrögðum? Nú kemur hugsanlega upp í hugann ímynd af geðsjúklingi sem heldur að hann hafi beina línu til guðs og guð sé að skipa honum að drepa John Lennon. Það er náttúrulega ekki satt að allir (né stór minnihluti) þeirra hafa sínar eigin trúarhugmyndir taki upp á svona rugli. Það þýðir þó ekki að svona trú sé meinlaus því hún fellur í raun undir jólasveinadæmið. Eini munurinn er að þú ert að setja sjálfur upp eigin hindranir og eigið verðlaunakerfi (þó það sé varla þitt eigið því í raun er það byggt á þeim trúarbrögðum sem þú hefur kynnst).

Ef einhver er að spyrja sig hvers vegna trú á álfa sé slæm þá er það einfalt. Svoleiðis fólk er alltaf að trufla vegagerðarmenn á röngum forsendum. Síðan væri náttúrulega sá möguleiki til í dæminum, ef einhver tryði raunverulega á allar þessar álfasögu, þá er gott að minnast á umskiptinga. Það álfar kæmu reglulega og skiptu út mennskum börnum fyrir álfabörn er grundvallaratriði í álfatrú. Ef einhver sem trúir á álfa myndi “sjá eitthvað illt” við barn þá væri sá hinn sami líklegur til að valda barninu skaða.

Og hvers vegna ekki trúa á drauga? Aðallega vegna þess að þá geta miðlar haft áhrif á þig með bulli sínu. Einsog ég hef áður tekið fram í skrifum mínum þá tel ég einungis til tvenns konar miðla, þá sem eru að þykjast og þá sem eru bara geðsjúkir. Síðan getur trú á drauga valdið myrkfælni sem er nú heftandi fyrir fólk.

Ég hef ekki enn talað illa um Bandaríkin og því tel ég nauðsynlegt að minna á að Mark David Chapman var bandarískur (þetta er brandari sem ég fer ekki að útskýra).

Lesefni fyrir forvitna
James Randi, sá sem bíður þeim verðlaun sem getur sýnt fram á tilvist hins yfirnáttúrulega.

Hinir björtu eru þeir sem sjá heiminn einsog hann er.