Valtýr Björn ekki með fingurinn á púlsinum

Í morgun hlustaði ég á Skonrokk, entist meiraðsegja að hlusta á beljuna Jónínu Ben í nokkrar mínútur. Þetta var fínt. Valtýr Björn kom í þáttinn að tala um íþróttir (sem mér þótti óþarfa innlegg). Dr. Gunni og Grjóni spurðu hann spurninga um hvernig hann héldi að leikur milli hinna þessara karlaliða við hin og þessi kvennalið myndu fara. Síðan spurðu þeir Valtý hvort svona leikur hefði aldrei farið fram (semsagt karlalið gegn kvennalið), hann sagði að það hefði gerst en langt væri síðan. Þetta þótti mér ekki bera vott um áhuga á því sem er á seyði í íslensku íþróttalífi. Um síðustu helgi átti að fara fram leikur milli kvennaliðs Breðabliks og karlaliðs Snartar Kópaskeri. Ekki veit ég hvernig leikurinn fór (ekki einu sinni hvort hann fór fram) en Valtýr Björn skaut harkalega framhjá með því að vita ekki af leiknum (takið eftir snjallri notkun minni á íþróttalíkingamáli). Hvernig vissi ég annars af því að þessi leikur ætti að fara fram? Ég hlusta á Rás 2.

Vona núna að Skonrokk geti orðið klassísk útvarpsstöð sem fer ekki niður á það stig að þurfa að vera endalaust með machoaulakjaftæði. Og spila meira Queen.