Foo Fucking Fighters

Við (Eygló, Óli og Hjördís) fórum á Foo Fighters í kvöld. Reyndar byrjuðum við að fara á American Style. Staðurinn var nær tómur þegar við komum inn en þegar það var verið að afgreiða okkur þá myndaðist biðröð, við sáum flesta úr röðinni aftur á tónleikunum.

Við mættum að Höllinni svona korter yfir sex og fórum í biðröð. Ég hef ákveðið að stofna svona dauðasveitir til að myrða alla sem troðast framfyrir í biðröðum. Klukkan sjö var hleypt inn, við komust frekar fljótt og fundum okkur sæti í stúkunni. Ég skrapp á klóstið áður en tónleikarnir hófust og hitti þá Villa Stebba, spjallaði aðeins við hann áður en ég fór aftur upp.

Eftir að áhorfendur höfðu margoft fagnað hljóðmönnum og róturum þá kom loksins hljómsveit á svið. Ég sagði að þessir náungar væru svo magrir að þetta væri örugglega Vínyll. Þeir voru svosem ágætir en ekki minn tebolli. Annars þá datt mér í hug hvað Júníusbræður minna mig á Óla Njál, allavega ef hann væri uppdópaður og sjúskaður (ég er hér ekki að dæma um líferni bræðranna).

Næst kom hljómsveitin My Morning Jacket og hún var nokkuð góð en greip ekki alveg.

Næst kom langt hlé þar til að hljóðmenn og rótarar höfðu fengið nóg af því að láta klappa fyrir sér þá kom Dave Grohl á svið. Grohl byrjar þá bara að spjalla og segir frá því að þeir hafi verið að borða á Stokkseyri þar sem þeir heyrðu síðan einhverja hljómsveit æfa. Þeir banka upp á og byrja að djamma með þeim, að lokum sagðist hann hafa boðið þeim að koma og spila eitt lag á tónleikunum. Grohl kynnir þá vini sína frá Stokkseyri, Nilfisk. Nilfisk er skipuð strákum sem eru svona 14-16 ára. Þeir spiluðu sitt lag og það var vel tekið á móti þeim enda voru þeir góðir.

Söngvari Nilfisk tók síðan og kynnti Foo Fighters en þurfti reyndar að spyrja hvaðan þeir væru (Grohl sagði cirka Kalifornía). Og All my life byrjaði og þeir rokkuðu. Þeir reyndar snarbreyttu um gír frá þeim tónleikum sem ég hafði skoðum lagalista yfir og tóku miklu fleiri lög (til að mynda 5 (minnir mig) aukalög í stað 2-3).

Fyrir síðasta lagið þá hélt Dave Grohl mikla ræðu um að Íslandi væri svalasti staður í heimi og að hann vildi koma hér árlega (að sumarlagi). Ræðan var svo innileg að maður trúði honum eiginlega.

Að vera í stúku var mjög fínt, horfði að vísu stundum niður á þvöguna og langaði að vera með en ég minnti síðan sjálfan mig á það hvernig þetta er raunverulega. Sumir voru samt mjög bældir í stúkunni og sátu nærri stjarfir en þegar var verið að klappa Foo Fighters upp þá stóðu nær allir á fætur og settust ekki aftur. Forstjóri Norðurljósa sat rétt hjá mér og mig langaði ægilega að óska honum til hamingju með það að hafa jarðað fréttastofu Stöðvar 2 en ég fékk ekki nógu gott tækifæri (hann fór áður en tónleikarnir voru búnir). Logi Bergmann sat líka í tröppunum rétt hjá mér í smá tíma og ég sá hann misstíga sig svo harkalega að hann hrundi næstum yfir saklausa áhorfendur.

Eftir tónleikana hitti ég Kela fyrrverandi vinnufélaga og spjallaði við hann, sagði honum “E. Furlong” söguna. Við vorum síðan merkilega fljót að komast burt þó stelpa á stórum jeppa hafi reynt að drepa okkur með vanþekkingu sinni á því hvernig hringtorg virka.

Og þetta var gaman.