Eddie Rips Up Egilshollin Reykjavik 07/06/05

Þetta voru skemmtilegir tónleikar. Það er reyndar svo að ég er ekki stór aðdáandi Iron Maiden en mér þótti óhæfa að sleppa þessu.

Ég sótti Eygló í vinnuna og við keyptum okkur pizzur til að verða ekki svöng á tónleikunum (við lentum illa í því á Plant-tónleikunum þar sem eingöngu voru seldar rándýrar flögur og litlar kókdósir). Við komum rétt fyrir sex en þá átti húsið að opna, það opnaði samt ekki klukkan sex, opnaði seint og síðarmeir. Hugsanlega vegna vandamála með eldvarnareftirlitið, heyrði starfsmenn eitthvað vera að ræða það.

Þar sem ég stóð fyrir utan Egilshöll þá kom mér til hugar skrif Robert Rankin um hópa ungra karlmanna í svörtum bolum, þeir voru nefnilega þarna. Ég held að Iron Maiden gæti átt met í fjölda seldra hljómsveitabola, Eddie er bara draumaækon þegar maður er 12-15 ára unglingsstrákur. Sjálfur eignaðist ég raunar ekki Maiden bol fyrr en í kvöld. Eygló keypti sér líka bol.

Við komumst nokkuð snemma inn og plöntuðum okkur á góðum stað á B-svæðinu sem við vorum á alla tónleikana. Rétt áður en upphitunarhljómsveitin byrjaði þá sá ég Aðalstein frænda koma í áttina að mér með fríðu föruneyti. Hann settist alveg rétt fyrir framan mig en tók ekkert eftir mér fyrren ég reif í hárið á honum og Solla benti á mig.

Nevolution hitaði upp og þeir voru alveg ágætir, stúlkan sem var að selja bolina þeirra var hins vegar ekki mjög upptekin þegar við litum til hennar.

Rétt áður en Maiden byrjaði þá sá ég Dúdda frænda og leit til hans, til að spjalla við hann þá fór ég á pallinn sem var þarna fyrir hjólastóla (gott framtak það). Eftir smá spjall heyri ég að einhver er að tala illa um mig fyrir að vera að nota hjólastólapallinn til að sjá betur. Ég leit við og útskýrði fyrir manninum að ég ætlaði nú ekki að vera þarna meðan hljómsveitin væri að spila heldur bara að spjalla við frænda minn aðeins (ég var ekki fyrir neinum). Það var hins vegar ekkert að því að skammast út í mig þarna, sjálfur hefði ég örugglega einmitt gert það sama í hans sporum ef ég hefði haldið að einhver ætlaði að misnota sér aðstöðu ætlaða fötluðum.

Eftir útskýringuna þá minnti ég manninn á að við hefðum unnið saman fyrir nokkrum árum. Hann mundi strax eftir mér og mundi meiraðsegja að ég héti Óli. Þar sem við tveir unnum þá vorum við báðir duglegir að gagnrýna yfirmenn okkar fyrir að fara illa með starfsfólkið og vorum báðir reknir fyrir vikið. Við blótuðum þessum bjálfum aðeins og síðan hvarf ég aftur til sætis míns. Þegar ég var kominn aftur þá sá ég að Eyþór var við hliðina á Dúdda og ég hafði ekkert tekið eftir honum.

Ég veit ekki hvað ég á að segja um Maiden. Flottir tónleikar, ég sjálfur þekkti ekki öll lögin en þó komu þarna mörg sem eru í uppáhaldi. Run to the Hills og Number of the Beast voru hápunktar en Hallowed Be Thy Name og Phantom of the Opera stóðu líka uppúr.

Þegar ljóst var að tónleikunum var lokið þá drifum við okkur út, fórum að bílnum sem hafði verið komið fyrir á mjög strategískum stað og brunuðum heim. Við vorum ekki nema um kortér út Grafarvoginum.

Ég ætlaði annars að nýta tækifærið að til að biðjast afsökunar á brandara mínum um nafn Grafarvogs í færslu fyrr í dag, hann var afar slakur.

5 thoughts on “Eddie Rips Up Egilshollin Reykjavik 07/06/05”

  1. Var líka á tónleikunum. Á besta stað á B-svæði. Svo þú hafir orð mikils Maiden aðdáanda fyrir því: Tónleikarnir voru FRÁBÆRIR.

  2. Ég sá til þín þegar þú varst að kaupa bol, annars þá voru þetta mjög góðir tónleikar, sérstaklega þegar maður er á besta stað á A-svæði.

Lokað er á athugasemdir.