Sing blue silver

Einfaldlega bestu tónleikar sem ég hef farið á hér á landi, sigrar þar með Rammstein, Placebo, Foo Fighters og Iron Maiden.

Við fórum í mat til Árnýjar og Hjörvars, þar hittum við Magga Teits og Hafdísi systur. Við skyldum Árnýju eftir heima og röltum af stað. Alltaf gaman að vera í bol í rigningu, allavega skemmtilegra en að vera í jakka á tónleikum. Við komumst nokkuð fljótt inn, ég og Eygló fengum A-svæðisbönd en ekki hin þrjú. Ég byrjaði á að kaupa mér bol og síðan komum við okkur inn.

Við settumst í “stúkuna” og vorum þar á meðan Leaves spilaði, voðalega er það óspennandi band. Þegar var klukkan var svona kortér í níu þá brutumst við Eygló inn á A-svæðið, það gekk ekkert of vel en við enduðum á frábærum stað með gott útsýni á John Taylor. Reyndar var gott útsýni á alla nema kannski Andy, Roger augljóslega nokkuð falinn samt bak við trommurnar.

Tónleikarnir voru pottþéttir frá upphafi til enda, sumir voru reyndar ekki að fíla nýju lögin en við Eygló vorum búin að kynna okkur þau og vorum með á nótunum. Mig grunar reyndar að Hafdís hafi verið eitthvað mótfallin *Come Undone* sem mér finnst svívirða.

Hápunkturinn fyrir mig var *The Chauffeur*, þegar það var að byrja klappaði ég áður en nokkur fattaði hvað væri á seyði. *Ordinary World* var augljóslega líka stórt númer enda er það lagið okkar Eyglóar.

Þeir tóku þrjú aukalög en ekki bara tvö. Simon tók sundsprett í krádinu og dró síðan stelpu upp á svið með sér. Mikið fjör. Afar skemmtilegt.

Eini bömmerinn er að *Is there something I should know?* skyldi ekki hafa verið spilað en ég vissi það svo sem fyrirfram. En fyrsta flokks skemmtun alla leið. Þeir kunna þetta. Og voðalega er Simon skemmtilega hallærislegur.

Sama spurning og áður, ekki erfið enda held ég mig við LP þekkingu ólíkt Tóta.

4 thoughts on “Sing blue silver”

  1. Ég ætla að vera asnalegi gæinn og segja að ég hefði viljað heyra Lonely in Your Nightmare. En þeir spiluðu Planet Earth þannig að þetta var solid. Og kóverinnskotin voru skemmtileg.

  2. Kræst hvað þetta voru geggjaðir tónleikar! Gat fylgst vel með Andy sem var alveg vintage í kvöld sérstaklega í Wild Boys með trademark sólgleraugun og logandi rettuna.

    Fyrirsögnin er auðvitað úr aðallaginu, The Chauffeur. Gæsahúðin hélt allt lagið, kom með fyrstu tónunum og gott ef hún er bara ekki ennþá.

Lokað er á athugasemdir.