Annáll 2006

Í hvert sinn sem ég hef skrifað annál ársins þá finnst mér eins og að árið sé það áhugaverðasta sem ég hef upplifað og að næsta ár geti engan veginn staðist samanburð.  Þetta ár er engin undantekning.

Árið byrjaði á því að ég tók við kosningastjórastöðu hjá Háskólalistanum.  Þetta var voðalegt stress og við enduðum með að tapa fylgi en vera með jafn marga menn.  Í stað þess að vera í stærsta meirihluta sem Stúdentaráð hefur upplifað þá vorum við í minnsta minnihlutanum.  Það var næstum jafn skemmtilegt.

Það næsta sem tók við var undirbúningur að útgáfu Slæðings.  Á um mánuði náðum við Sigrún Ísleifsdóttir að gefa út glæsilegt rit þjóðfræðinema.  Voðalega stolt af því.  Í kjölfarið var komið að því að ég gengi formlega frá umsókn um MA-nám í þjóðfræði.  Það var voðalegt stress en ég náði að koma umsókninni inn og fá hana samþykkta.

Við Eygló fórum til Skotlands um miðjan apríl.  Það var ákaflega gaman.  Sérstaklega féllum við fyrir Edinborg.  Áhuginn á Skotlandi var vakinn af Gary West kennara frá Edinborgarháskóla sem kom hingað og kenndi kúrsinn Menningararf í byrjun árs.

Ég byrjaði að vinna strax í maí og notaði það sem afsökun fyrir að klára ekki BA-verkefnið, reyndar var það skammarlega stutt á veg komið þá.  Á sama tíma fór undirbúningur fyrir ráðstefnuna Jákvæðar Raddir trúleysis á Íslandi á fullt.  Ég kom fram í sjónvarpi með Bigga og nagaði á mér skeggið.  Síðan þegar að ráðstefnunni kom þá fékk ég að umgangast þetta yndislega skemmtilega og gáfaða fólk sem við fengum til lands til að halda fyrirlestra.  En það var líka dásamlegt að fá að kynnast trúleysingjum héðan og þaðan úr heiminum.  Af þessum almennu gestum þá fannst mér breski húmanistinn Josh vera áhugaverðastur og kenndi mér mest.  Það var hins vegar mesta upplifunin að kynnast Richard Dawkins sjálfum og það kom mér satt best að segja á óvart hvað hann var hlýr og indæll maður.  Dan Barker, Annie Laurie, Julia og öll hin voru að sjálfssögðu dásamleg líka.  Eftirminnilegasti atburðurinn var ekki það að sitja fyrir svörum ráðstefnugesta um ástand trúmála á Íslandi heldur það að sitja á Austurvelli með alræmdustu trúleysingjum landsins leikandi við fimm ára stelpu á meðan mamma hennar undirbjó sig fyrir að sýna okkur leikþátt.  Í kjölfar ráðstefnunnar lenti ég síðan í ritdeilum á síðum Morgunblaðsins.  Held að ég hafi hrakið flestar þær vitleysur sem fram höfðu komið alveg ágætlega.

Í júlí fékk ég þær fréttir að föðuramma mín væri komin á sjúkrahús.  Ég dreif mig norður og var hjá henni í smástund, keyrði síðan suður strax aftur.  Hún dó nokkrum dögum síðar.  Þó jarðarfarir og erfidrykkjur séu erfiðar þá er alltaf gott að fá að hitta fjölskyldumeðlimi sem maður hefur ekki hitt lengi.

Gotlandsferð þjóðfræðinema hafði verið í skipulagningu lengi og við fórum út í byrjun ágúst.  Við fórum fyrst til Stokkhólms þar sem við gistum á vafasömu bátahóteli. Á Gotlandi var miðaldahátíð sem var afsökunin fyrir ferðinni.  Þar gistum við líka í gömlu fangelsi sem var ákveðin stemming.  Það var mjög gaman að eyða þessum tíma með þessu skemmtilega fólk.  Kynnast því betur og fá ekki einu sinni ógeð af því að vera nálægt því svona lengi 😉
Ég hætti fyrr í vinnunni en ég hafði ætlað og fór að klára fjandans BA-verkefnið sem hafði svo lengi hvílt á mér.  Ég þurfti að klára það þar sem samþykki mitt inn í MA-námið var háð þessu “smáatriði”.  Ég tók viku á Bókhlöðunni og kláraði alla handavinnuna.  Það kom líka í ljós að allur tíminn sem hafði farið í áhyggjur hafði skilað sér í því að ég var alveg tilbúinn.  Ég skilaði verkefninu á góðum tíma, var með akkúrat 300 færslur og fékk níu.  Ég útskrifaðist í október og má núna kalla mig bókasafns- og upplýsingafræðing.  Útskriftarveislan var indæl.  Það er erfitt að lýsa því hvað ég var feginn að hafa klárað þessa gráðu.  Þegar ég hætti í Menntaskólanum á Akureyri á sínum tíma þá var ég svolítið hræddur um að ég næði mér ekki á strik aftur í náminu.

Þessi önn í MA-náminu hefur verið ótrúlega skemmtileg, ég er viss um að þjóðfræðin er rétt hilla fyrir mig.  Önnin var líka mjög mjög mjög erfið.  Hélt á tímabili að ég myndi fríka út.  Valdimar gerði sitt besta til að gera okkur pró í þjóðfræði með því að henda í okkur lesefni, ég veit ekki hvort ég get fullyrt að það hafi tekist, en ég veit að honum tókst að búa til samrýmdan hóp nemenda í Rannsóknum í þjóðfræði.  Meira að segja Edinborgarbúinn er fullgildur meðlimur þó hún hafi bara einu sinni komið til landsins.  Við hittumst nokkrum sinnum utan tíma og stefnum á að halda hittingum áfram á næsta ári.  Í MA-náminu er líka það að frétta að undirbúningur fyrir það að koma mér út til Nýfundnalands á næstu haustönn gengur vel og mun væntanlega fara á fullt rétt eftir áramót.

Í október fór ég líka út til Kaupmannahafnar.  Ástæða ferðarinnar var að ég vildi sjá vini mína í Tý á tónleikum.  Þeir gáfu út nýjan disk á árinu og það svalasta af öllu svölu er að mér var þakkað í bæklingnum.  Mikið þótti mér vænt um það.  Tónleikarnir voru eftirminnilegir, líka spjallið fyrir þá, eftirpartíið en mest stressandi var þegar mér var treyst fyrir því að keyra um götur Kaupmannahafnar á Tutl-sendiferðabílnum.  Góða minningar.

Í desember fékk ég gríðarlega sáran verk í bakið einn morguninn sem varð bara sífellt verri.  Ég endaði með að gefast upp og hringdi á heilsugæslustöð hverfinsins.  Þar varð fyrir svörum hjúkrunarfræðingur sem sagði mér að drífa mig á spítala þar sem ég væri greinilega með nýrnasteinskast.  Ég eyddi deginum á spítalanum þar sem var potað í mig, sprautað í mig og ég myndaður.  Aðalatriðið var samt að verkurinn var drepinn mjög snemma með góðu verkjalyfi.  Ég fer aftur í skoðun eftir áramót til að athuga hvort það sé ekki örugglega allt í lagi með mig.

Það eru samt ekki stóratburðir sem standa uppúr á árinu heldur fólkið.  Mikið er gaman að þekkja allt þetta skemmtilega, klára og indæla fólk.  Ég er heppinn með vini.  Annars þá sjáið þið væntanlega að ég hef sleppt því úr sem markar hve mest tímamót en ég er ekki alveg tilbúinn til að tala um það.

Ég vona að næsta ár verði jafn gott en ég vona líka að það verði aðeins rólegra þó að mér sýnist að mér ætli að takast að búa til ótal spennandi og krefjandi verkefni fyrir sjálfan mig á árinu.

Takk fyrir árið og vonandi eigum við góðar stundir saman á því næsta.

Óli