Banna ljósaperur? Eða…

Það er ákveðin tegund brandara sem treystir á að sá sem heyrir hann viti ekki nóg um efnið.  Þetta er svona “hvers vegna eru flugvélar ekki úr sama efni á svarti kassinn” brandarar.  Ég sá vísað á svona brandara af vef ungra Framsóknarmanna um daginn.  Textinn var eitthvað á þá leið að þarna væru umhverfisverndarsinnar sem væru á móti ljósaperunni (merkt haha).  Þarna var vísað á mynd þar sem fólk hélt á borða sem á var glóðarpera sem búið að vera að setja bannmerki yfir.

Þarna kemur í ljós hvers vegna er gott að vita örlítið meira nema að maður hafi bara einungis áhuga á að hlæja að brandaranum.  Það eru nefnilega til ótal tegundir af ljósaperum.  Sú sem við hugsum almennt um þegar talað er um ljósaperu er einmitt glóðarpera.  Þessi tegund af perum er í raun ákaflega lík fyrstu perunum sem gerðar voru.

Það er helst tvennt sem gerir glóðarperuna slaka í samanburði við aðrar perur.  Í fyrra lagi þá endist hún mjög stutt.  Í seinna lagi þá notar hún skelfilega mikið rafmagn.  Þetta er grunurinn fyrir því að sumir umhverfisverndarsinnar vilja banna glóðarperuna.  Nýlega var frétt um bann á glóðarperum í Ontario í Kanada.  Það er líka í raun þannig að glóðarperan er meira og minna tæknilega úrelt.

En það hefur ekki tekist að skipta glóðarperunni út.  Það eru óendanlega margar ástæður fyrir því. Kannski fyrst og fremst sú að fólk er ekkert hrifið af nýjungum.  Einnig eru til kenningar um samráð rafmagns- og glóðarperuframleiðenda.  En það heyrir hins vegar til undantekninga að glóðarperur séu notaðar í atvinnuhúsnæði.

Sparperur eru í raun flúrperur sem er hægt að skrúfa í ljósastæði ætlar glóðarperum. Afi minn var ákaflega hrifinn af sparperum.  Ef hann hefði lifað nokkur ár í viðbót hefði hann án efa glaðst yfir því hve ódýrar þær eru orðnar og hve auðvelt er að nálgast þær.  Ég var aðeins lengur að taka við mér, greinilega ekki jafn nýjungagjarn og sá gamli. Ég byrjaði nýlega að nota þær.  Ég var bara einfaldlega búinn að fá leið á að skipta svona reglulega um perur og finn strax fyrir mun.

Ef ég er rétt upplýstur þá er annar kostur við sparperur.  Á Íslandi á að vera 230 volta spenna í húsarafmagni.  Raunin er sú að spennan flöktir mikið.  Þetta er mjög slæmt fyrir glóðarperur sem jafnvel hvellspringa ef flökt kemur í rafmagnið.  Það eru því líkur á því að meðalending á glóðarperum sé lægri á Íslandi en annars staðar.  Sparperur (og flúrperur almennt) eru ekki jafn næmar fyrir svona spennuflökti.  Ég tek fram að hér er ég að treysta á orð rafvirkja án þess að hafa fengið þetta vel staðfest.

Varðandi umhverfisvernd þá var ég að lesa mér til og málið er ekki alveg skýrt. Vandinn er að þær innihalda kvikasilfur. Ég sé ekki upplýsingar um málið á heimasíðu Sorpa en ég er búinn að senda þeim fyrirspurn um málið.

Það má hins vegar gera ráð fyrir að það sé alls ekki langt í betri lausnir heldur en þessar sparperur sem við þekkjum í dag.  Ég neita samt að spá um tíma.  Fyrir rúmum fjórum árum var frétt í Mogganum þar sem var spáð að díóður tækju við af hefðbundnum perum eftir…. giskiði nú… fjögur ár.