Örbylgjuofninn

Fyrir nokkru byrjaði örbylgjuofninn minn að vera með leiðindi. Hann hitaði ójafnt og það heyrðust einhver undarleg hljóð í honum. Hann er líka orðinn ríflega níu ára gamall, eiginlega jafnaldri sambandi okkar Eyglóar. Hann var keyptur í RadioNaust rétt eftir að ég flutti í kjallarann í Stekkjargerði.

Um daginn fórum við svo í Elkó og kíktum á ofna. Við höfðum ákveðið að kaupa einn sem væri líka með grilli. Við vorum nærri búinn að kaupa einn þegar við tókum eftir því að það var hægt að fá einn sem var með grilli, blæstri og örbylgju. Hann kostaði örlítið meira en við stukkum á hann enda er bakstursofninn okkar ekki með blæstri.

Ég prufaði strax daginn eftir að búa til brauð í honum sem gekk alveg glimmrandi. Það gekk hins vegar verr þegar ég ætlaði að baka skúffuköku í honum. Hún var fulllengi að bakast. En ég er samt ánægður. Ég var minna ánægður þegar ég sá sama ofn með 3000 króna afslætti í Elkóblaðinu. Mér skilst að Elkóverðverndinn verndi mann ekki fyrir Elkó þannig að ég verð bara að kyngja biturleika mínum. En ofninn er góður.