Týr á Nasa

Týr var á Nasa í gærkvöldi og við augljóslega á staðnum. Við tókum að okkur miðasölu fyrsta klukkutímann en vorum síðan laus.

Við hlustuðum voðalega lítið á fyrsta bandið sem var Perla. Virtist vera bara svipuð og aðrar af þessum ungu hljómsveitum sem hafa verið að hitta upp. Síðan kom Dark Harvest sem mér finnst mjög góð og sérstaklega reyndar þegar þeir eru eins og þeir voru í upphafi – án söngs (og ég er ekki að reyna að dissa söngvarann þeirra, ég bara vandist þeim svoleiðis og fíla þá þannig). Mammút var númer þrjú á svið. Við höfðum hlakkað til að sjá þau loksins og það voru engin vonbrigði. Við eigum örugglega eftir að kíkja meira á Mammút. Síðast upphitunarhljómsveitin var Severed Crotch – fremsta dauðarokkhljómsveit landsins skv. Vésteini sem var á staðnum. Hún höfðaði eiginlega ekki til mín. Við færðum okkur upp í afdrep hljómsveitanna á meðan þeir voru á sviðinu.

Þegar dauðametallinn var búinn komum við okkur fyrir hjá Sverri mág Heri (sem lóðsaði mig um Þórshöfn og keyrði út á Kirkjubæ á sínum tíma). Þegar Steini sá hvað við höfðum í raun slakt útsýni sendi hann okkur inn á svæði hljóðmannsins þar sem við fengum óheft útsýni yfir sviði. Þetta var því töluvert öðruvísi en hin kvöldin þar sem ég var í þvögunni. Það var góð tilbreyting fyrir þá að fá sviðið á Nasa. Þeir gátu hreyft sig um og þannig skemmt áheyrendum. Þegar ég horfði á þá svona þá hugsaði ég hvað þeir væru nú frábært samsetning. Terji, Heri og Gunnar mynda framlínuna. Heri stjórnandi öllu á miðjunni með allt á hreinu. Gunnar hægra megin skemmtandi sjálfum sér og öðrum og hvetjandi fólk til að vera með. Terji hinum megin sem hin últra svali gítarleikari sem er skítsama um allt. Að þessu leyti mæðir kannski minnst á Kára á bak við trommurnar enda sést hann ekki vel. En hann tekur samt reglulega þátt í showinu. En já, þó mér hafi þótt gaman að sjá allt þá held ég að njóti þess meira að vera í skaranum.

Tónleikarnir voru aðeins lengri en fyrri kvöld. Þeir bættu við Ragnarök og The Rune sem ég man ekki hvort ég hef heyrt þá spila áður. Það var allavega hápunktur kvöldsins hjá mér, þessi tvö lög. En augljóslega trylltust áheyrendur þegar Ormurin var spilaður. Ég skrifa annars betur um Akureyrartónleikana fljótlega.