Tónleikarnir á Akureyri

Þegar við fórum á tónleikana á fimmtudag í Keflavík bað Steini, sem sá um að flytja inn hljómsveitina, okkur um að taka að okkur að taka með okkur farþega norður og aftur suður. Við mættum heim til Steina milli 1-2 eftir hádegi á föstudag. Þar sat Týr í heild sinni hálfsofandi í bílnum hans Steina. Við heilsuðum aðeins upp á þá þegar þeir vöknuðu. Á meðan við vorum að bíða eftir Steina skelltu þeir líka disk í bílaspilarann. Þar var um að ræða upptöku sem var gerð fyrir Rás 2 um morguninn. Þeir voru meira og minna að ergja sig á því hvernig til hafði tekist en slíkt er ekkert nýtt, þeir ergja sig alltaf á öllu sem fer úrskeiðis. Eygló heyrði reyndar bara að þeir voru að hlusta á sjálfa sig og var svolítið hissa þar til þetta var skýrt.

En Steini og Fríða komu að lokum og við fengum Heri yfir í bílinn til okkar. Við vissum ekki alveg hvaða tónlist skyldi spila fyrir hann í bílnum. Uriah Heep var í tækinu og það virkaði vel. Við spjölluðum heilmikið á leiðinni norður, trúmál voru þar ofarlega á baugi enda Heri harður skoðanabróðir okkar. Honum þótti mikið til koma að ég hefði hitt Richard Dawkins og við ræddum heilmikið um hann og alla hina. Við ræddum líka augljóslega um tónlist. Hápunkturinn á bíltúrnum var samt þegar Heri dró upp skrifaðan disk sem innihélt tvö demólög af væntanlegri plötu. Við skelltum honum í og ég tilkynnti honum að hann fengi diskinn aldrei aftur (en stóð reyndar ekki við það). Diskurinn var reyndar slakur og virkaði illa í spilaranum, stoppaði á einnar og hálfs mínútu fresti. Það var svolítið skrýtið að hlusta á þetta með Heri aftur í, væntanlega að reyna að lesa í öll svipbrigði okkar. En bæði lögin voru góð, þó hrá væru, og annað var alveg ákaflega flott.

Þegar við nálguðumst Akureyri þurftum við að fara heillanga hjáleið en við komum Heri af okkur á góðum tíma á Græna hattinn þar sem félagar hans voru nýkomnir. Við fórum til Hafdísar og Mumma þar sem við fengum mat. Þau höfðu þegar keypt sér miða á tónleikana og komu með okkur. Þegar komið var á Hattinn kom í ljós að það var uppselt og þar að auki hafði Steini gleymt að láta okkur Eygló á gestalista. Við þurftum því að hanga þarna heillengi bíðandi eftir að hópurinn kæmi úr kvöldmat. En þeir komu og við komumst inn að lokum. Það var allt troðið þarna þannig að við gerðum ráð fyrir að þurfa að standa í gegnum allar hljómsveitirnar. En Steini benti okkur á að það væri borð fremst merkt hljómveit og þar mættum við vera. Við Eygló, Hafdís og Mummi fórum þangað og hittum fyrir Sigga Hólm. Við tveir höfðum einmitt verið saman í útvarpsviðtali, sitt hvorum megin á landinu, tveimur dögum áður.

Það er greinilega ennþá fólk sem mér líkar við fyrir norðan. Við hittum Brynju vinkonu okkar sem við höfum ekki séð síðan við fluttum frá Akureyri. Einnig var þarna Árni Pétur skáfrændi sem er orðinn nógu gamall til að fara á skemmtistaði! Villi Stebba var líka á staðnum. Það hituðu fjórar hljómsveitir upp og þær voru allar öskrandi metall, ekki alveg minn stíll. Það var líka mikið af eldra fólki á staðnum sem flúði ítrekað aftast til að heyra sem minnst. Þegar Týr byrjaði sást að gæðalevelið varð allt annað og yndislegra. Eftir á sagði Hafdís að þetta hefði verið þess virði að þurfa að heyra fjórar lélegar hljómsveitir fyrst. Ég sat aðeins við borðið en stökk síðan í þvöguna. Undir lokin þurfti ég aðeins að sinna gæslustörfum þegar unglingarnir voru farnir að ryðja hljóðnemastatífi Heri um koll. Við fórum fljótt heim vegna þess að við þurftum að vakna snemma.

Við komum okkur á fætur og fórum að hitta liðið. Þar hittum við pabba Fríðu og spjölluðum aðeins við hann. Þegar við ákváðum hvert skyldi fara til að kaupa nesti fyrir ferðina notaði ég tækifærið og leiddi alla upp í Hrísalund/Kristjánsbakarí. Ég þurfti að kaupa anísstykki. Þegar þangað var komið var allt morandi í VG liði (btw. til hamingju Steinunn frænka!). Síðan lögðum við af stað. Ferðin var tíðindalítil. Við stoppuðum á leið upp á Öxnadalsheiði þar sem bíll hafði farið útaf. Enginn hafði slasast og þegar komið fólk til aðstoðar þannig að við stoppuðum ekki lengi. Í Varmahlíð var stoppað og Eygló keypti tíu piparsleikjóa. Á leiðinni sungum við meðal annars með lögunum Take on me og Sweet Child of Mine. Heri steinsofnaði á kafla og las einnig í Snorra Eddu. Við komum rétt um fjögur til Reykjavík og settum Heri inn á Nasa og biðum eftir að Steini og félagar kæmu líka. Síðan fórum við heim og hvíldum okkur. Þetta var skemmtileg ferð.