Annáll 2008

Í lok árs 2007 kom ég heim eftir þriggja mánaða dvöl í Cork á Írlandi þar sem ég hafði verið í námi.

Í stað þess að leggja áherslu á að klára MA-ritgerðina strax ákvað ég að fara að vinna. Ástæðan fyrir því var fyrst og fremst sú að utanlandsdvölin þýddi töluverðan mínus. Ég var ráðinn í ár í afleysingar.

Í lok febrúar 2008 skruppum við til London. Á Trafalgar torgi bað ég Eygló að giftast mér og hún sagði já.

Í júní fór ég niður á Austurvöll og fylgdist með ónefndum félaga mínum marsera á eftir prestum í Svarthöfðabúningi. Ég bjó síðan til myndband af þessu með keisaramarsinum undir sem hefur farið víða um internetið. Síðan fór ég til Derry á Norður Írlandi og flutti þar fyrirlestur um efni MA-ritgerðar minnar. Grein um sama efni birtist í írsku þjóðfræðitímariti.

Rétt eftir að ég kom heim fórum við til Svíþjóðar til að vera við brúðkaup Önnu Steinunnar minnar og Martin. Þaðan flugum við til Kaupmannahafnar til að fara á tónleika með Tý.

Týr heimsótti síðan Ísland í október og við eltumst við hljómsveitina um landið allt. Nokkrum dögum síðar fór Eygló í vinnuferð til Skotlands og ég fylgdi með. Fyrst vorum við í Edinborg með vinnufélögum Eyglóar en síðan fórum við Glasgow. Þar fórum við á tónleika með Queen + Paul Rodgers (leifarnar af Queen með nýjum söngvara). Það var alveg ógurlega skemmtilegt. Þessi ferð var að sjálfssögðu mjög undarleg sökum kreppunnar og sífelldrar umfjöllunar um Ísland í fjölmiðlum. Sem betur fer var allt þó borgað löngu áður en krónan hrundi algjörlega.

Ég flutti fyrirlestur um sama efni og áður á ráðstefnunni Þjóðarspegillinn í október og birtist grein í kjölfarið í ritinu Rannsóknir í Félagsvísindum IX.

Um svipað leyti kom út bókin Andlegt sjálfstæði sem ég ritstýrði. Hún hafði verið töluverðan tíma í vinnslu en mun gleðja menn um ókomin ár.

Ég hef skrifað annál núna í nokkur ár. Alltaf hef ég talið árin svo áhugaverð að erfitt verði fyrir næsta ár að slá þeim við. Loksins rætist spádómurinn. Líklega. Ég veit nefnilega ekki hvort þetta ár nær því. Corkdvölin var að svo mörgu leyti svo stórt skref að fátt slær það út þó ég telji afrek þessa árs nokkuð merk. Síðan er þessi annáll spes því ég spái að næsta ár verði áhugaverðara en það síðasta. Margt á döfunni. Það er ekki langt í þrítugsafmælið og vonandi næ ég að útskrifast. Síðan er aldrei að vita hvað poppar upp.