Lockerbie

Það hefur verið undarlegt að fylgjast með umfjöllun um lausn Lockerbie sprengjumannsins dæmda. Skrýtnast var að sjá fréttaflutning af fögnuðinum þegar hann sneri heim. Ég sá engan fjölmiðil reyna að láta þetta út öðruvísi en þarna væru trylltir múslímar að fagna því að fjöldamorðingi og hryðjuverkamaður hafi verið látinn laus. Ég er nokkuð viss um að þeir sem fögnuðu, utan hugsanlega þeirra sem ráða þarna, hafi verið að gleðjast yfir því að maður sem þeir töldu saklausan hafi verið látinn laus eftir að hafa dvalið lengi ranglega dæmdur í erlendu fangelsi. Kannski er maðurinn sekur og kannski vita allir á toppnum það en það er líklega ekki það sem almenningur hugsar.

Um leið er umræðan um ástæðu lausnarinnar leiðinleg. Ótal margir hafa hneykslast á því, aðallega bandaríkjamenn. Ég get ekki ímyndað mér betri skilaboð til múslímaheimsins en þau að leysa mann úr fangelsi vegna þess að hann er veikur. Það er til þess fallið að laga samkomulagið milli menningarheima. Það að stjórnvöld í Líbíu vilji að almenningur þar í landi trúi því að þetta hafi verið einhver bakherbergissamningur um olíu sýnir fyrst og fremst að þetta er rétt mat hjá mér. Þar mega þeir ekki við því að missa góða óþokka. Ekkert sameinar fólk betur en sameiginlegur óvinur og stjórnvöld græða á því (svo lengi sem þau eru ekki umræddur óvinur).