Dagurinn

Ég hef nú eitthvað að segja frá sjálfum mér sem á ekki betur heima á fjölskyldublogginu.

Ég var á þönum í dag. Í gær kom bókin mín úr prentun (lofa almennilegu bloggplöggi fljótlega) og þar sem útgefandinn, Þjóðfræðistofa, er á Hólmavík þá kemur það í minn hlut að sendast með hana. Tvær búðir voru fljótar að taka söluboðinu og ég fór því með eintök í Bóksölu stúdenta (sem fékk líka fyrstu eintökin af Andlegt sjálfstæði) og í Bókabúð Máls og Menningar. Ég skutlaðist líka með eintök út í CCP.

Það var reyndar smá vesen með að fara með bækurnar í Bóksöluna af því að mig vantaði að prenta reikninga þar sem prentarinn minn var eitthvað klikk í morgun. Ég ætlaði í tölvustofuna sem er á Háskólatorgi en þar var tími í gangi. Ég þurfti því eiginlega að hlaupa yfir í Odda (ég var tímabundinn) og til baka til að klára málið. Það gekk samt allt.

Ég losaði mig líka beint við þrjú eintök af bókinni og þar af eitt í vöruskiptum (Eygló fékk þá bók enda mikill aðdáandi Vilborgar).

Ég talaði á málstofu fyrir meistaranema í þjóðfræði ásamt fleiri meisturum. Ég reyndi að fókusa sem mest á þau aðferðafræðivandamál sem ég lenti í og náði að tala nær ekkert um efnið sjálft. Það þótti mér skemmtilegt enda hafa fæstir áhuga á þessum hluta vinnunnar.

Ég átti síðan ágætan fund með fulltrúa fjármálaráðuneytisins. Ég gleymdi samt að minnast á að ég hefði endilega viljað fá eitthvað af þessum peningum sem ráðherrar eru að dreifa út um allt. Ég held ég hafi líka meiri þörf fyrir það en Sigurður – sem vakti mig eldnsemma á sunnudagsmorgni fyrr í haust með kirkjuklukkum á Siglufirði og kannast ekki við vinsældir Birtíngs – Ægisson.

Um fimmleytið fór ég síðan á Siðmenntarhóf þar sem Orri Harðarson og Alþjóðahús fengu viðurkenningu. Endilega lesið bókina hans Orra Alkasamfélagið. Ég borðaði mig næstum saddan af veitingunum.

Í kvöld hef ég síðan verið að reyna að skera aðeins fituna af greininni fyrir fyrirlesturinn á morgun. Ef þið eruð spennt þá er ég í seinni þjóðfræðimálstofunni á morgun á Háskólatorgi, stofu 300, klukkan 15.