Leikir og söngur

Á laugardagskvöldið fór ég í afmæli til Kalla. Það var pönkþema í partíinu. Ég setti af því tilefni upp barmmerki með orðinu pönk og mynd af öryggisnælu sem ég fékk á sýningu sem Unnur var með í að setja upp á sínum tíma á Árbæjarsafni. Ég ætlaði reyndar að setja barmmerkið í eyrað en það er fjandi erfitt að koma svona beittum odd í gegnum gatið.

Það var ágætis blanda þarna af fólki sem þekkti, þekkti smá og þekkti ekkert. Kórvini Telmu og Kalla kannast ég merkilega mikið við. En Telmu lét okkur leika tvo leiki til að læra nöfnin á hvert öðru. Annars vegar þurftu allir að kynna sig og nefna alla sem höfðu kynnt sig á undan. Ég var aftastur í röðinni og er stoltur af því að hafa náð öllum nöfnunum. Hins vegar var klappleikur sem ég náði að feika mig út úr ólíkt nokkrum af strákunum. Flestar stelpurnar eru hins vegar svo vanar úr æsku að þær ná þessu um leið.

Reyndar var fyrsti leikur kvöldsins spurningakeppni. Ég og Kalli enduðum efstir en ég sigraði í bráðabana. Einhver gæti haldið að þemað sem Telma hafði á hluta spurninganna, árið 1979, hefði hugsanlega getað hjálpað mér en þar sem sérfræðiþekking mín á McDonalds og EuroVision nær ekki frekar til fæðingarárs míns en annarra ára þá varð það til lítils.

Þegar á leið var Singstar dregið fram en ég hafði aldrei prufað það áður. Ég held að ef menn leiti aftur í tímann á þessu bloggi þá finni menn dæmi um sönghæfileika mína. Þeir snúast að mestu um persónulega tjáningu og því mætti halda að Singstar sé ekki fyrir mig. Það er að hálfu til rétt. Singstar hatar mig en ég elska það. Singstar hataði mig sérstaklega þegar ég söng Creep og Born to Wild. Í fyrra laginu var það kaflinn um hlaup stúlku nokkrar sem ég tjáði af mikilli innlifun og fékk einkunnina “awful” ítrekað. Best gekk mér að syngja The Show Must Go On á móti Telmu. Hún heldur því fram að þar skipti mestu að ég hafi kunnað lagið en á móti er rétt að benda á að hún kann á leikinn. Meðal annarra laga sem ég tók voru Personal Jesus (Manson útgáfan), Time after Time (Cyndi Lauper), I Want You (Savage Garden sem var mjög erfitt) og Ordinary World (Duran Duran).

Singstar virtist líka vera hrifnast af falsettunni minni sem almennt vekur ekki slíka aðdáun. Það er annars almennt heppilegt fyrir mig að ég þjáist ekki af skömm þegar kemur að söng og læt bara óhikað vaða. Áheyrendur eru ekki alveg sammála um að þetta skömmustuleysi mitt sér gott. Fólkið þarna var sem betur fer bara í að hafa gaman af þessu.

Ég endist óvenjulengi þarna og klukkan var að nálgast fjögur þegar ég kom mér heim á leið. En þetta er augljóslega það sem þarf til að skemmta mér í partíum. Leikir og söngur. Ég var líka ónýtur í hálsinum á sunnudaginn.