Þing- og sveitarsjóðsgjöld í fæðingarorlofi

Eygló fékk áðan bréf frá “Innheimtumönnum ríkisins” þar sem kom fram að skuld hennar væri gjaldfallinn. Annars var lítið um upplýsingar og bréfið frekar kryptískt og illskiljanlegt. Okkur brá svoltið við þetta enda erum við mjög passasöm upp á alla reikninga. Við fórum í gegnum alla miða sem hafa borist síðustu mánuði, alla reikninga í heimabanka og gúggluðum til að reyna að finna upplýsingar en ekkert gekk. Okkur grunaði að þetta gæti tengst því að Eygló er í fæðingarorlofi en fundum ekkert um slíkt þegar við leituðum. Ég fann hins vegar bloggfærslu þar sem einhver sem er í fæðingarorlofi er að tala um að hafa fengið svona seðil óvænt en tengir það tvennt ekki sjálfur saman.

Ég hringdi næst í Tollstjóra, fyrst hringdi reyndar út og síðan þurfti ég að bíða heillengi eftir þjónustufulltrúa. Ég spyr konuna út í þessi mál og þá sérstaklega hvort að þetta tengist því að Eygló sé í fæðingarorlofi. Þá fæ ég þau svör að þessi gjöld væru jú dregin af launum venjulega en ekki af greiðslum úr fæðingarorlofi. Hún hafði bara engan skilning á því að við skyldum ekki bara vita þetta. Ef maður áttar sig ekki á þessu þá fær maður enga fyrstu viðvörun eða rukkun í heimabankann heldur fær maður bara að vita að maður sé kominn með skuld.

Til viðbótar finnst mér furðulegt að við fengum endurgreitt frá skattinum en þurfum núna að borga einhvern hluta af því til baka. Ég bara skil þetta ekki.