Avatar séð

Við fórum á Avatar í kvöld og nýttum þannig tækifærið sem gafst með því að fá tengdó í heimsókn. Ég setti líka upp linsur af þessu tilefni.

En myndin er slöpp. Hún hefði mátt vera svona klukkutíma styttri án þess að missa nokkuð sem skipti máli. Of langar skógarhoppsenur og of langar bardagasenur.

Ég var svoltlið spenntur að sjá hvort HHG hefði haft rétt fyrir sér og að þarna væri verið að predika gegn tækni. Svo var alls ekki. Tæknin í myndinni er hlutlaus og þar að auki eru vísindamennirnir einfaldlega góðir. Það er bara spurning hvernig menn nota tæknina. Þetta gladdi mig.

Boðskapurinn er fínn. Það er umhverfisvernd og and-heimsveldisstefna. Eitthvað fór það framhjá Hannesi.

Það sem er að vissu leyti rétt hjá HHG að þarna er lifandi kominn hinn göfugi villimaður. Blámennirnir í myndinni eru eiginlega indíánasvertingjar og þarna eru innlimaðar ótal bjánalegar steríótýpur um villimenn. Þeim er síðan bjargað af hvítum manni. Að sjálfsögðu er þetta bara rasismi.