Átta ár af bloggi

Ég átti bloggafmæli í fyrradag og mundi ekki eftir því. Reyndar bloggaði ég fyrst í nóvember-desember 1999 en tel það ekki með af því að það entist ekki. Þá vissi ég svosem ekki að það væri til eitthvað sem héti blogg.

Fyrst bloggaði ég á heimasvæðinu mínu hjá Símanum og handuppfærði allt. Það byrjaði 26. febrúar 2002. Rúmu ári seinna fékk inni á Kaninkunni og bloggaði þar í einhvern tíma áður en ég keypti Truflun.net og byrjaði að blogga hér.

Síðasta ár hefur væntanlega verið lélegasta árið mitt í bloggi. Ég blogga sjaldan og hef lítið verið spenntur. Ástæðan er augljóslega aðallega sú að bloggið var samfélag hér áður fyrr þar sem menn skiptust á skoðunum og það hélt þessu svoltið gangandi. Facebook hefur tekið svo margt yfir. Ég sendi núna bloggfærslur sjálfkrafa á Facebook sem ýtir kannski aðeins við mér. Maður skrifar kannski frekar stutta færslu en uppfærslu á status.

Ég hef ekkert í hyggju að hætta að blogga. Ég geri fastlega ráð fyrir að Facebook sé bara bóla og bloggið snúi aftur enda er það miklu skemmtilegra form.

Ég blogga fyrst og fremst fyrir sjálfan mig og það hefur oft verið ómetanlegt að geta flett upp í því til að komast að því hvenær eitthvað gerðist eða hvað gerðist. Ég er líka með alvöru blogg en ekki eitthvað “málefnablogg”. Ég blogga um mig og mig og fólkið í kringum mig þó ég röfli stundum um eitthvað annað. Það er langbest.

Annars hitti ég Unu Margréti Jónsdóttur frægu konu í vikunni. Harðadisksflakkarinn sem ég keypti fyrir jól virðist vera að klikka. Goðheimar eru uppáhaldsteiknimyndasögurnar mínar eða allavega þær sem hafa haft mest áhrif á mig. Og Kreml.is er löngu dautt og grafið.