Án aðhalds VG

Það er voðalega erfitt að skoða kannanir og sjá hvernig fer fyrir VG þar. Af einhverjum ástæðum er flokknum refsað harðar heldur en Sjálfstæðisflokknum. Fyrir hvað veit ég ekki. Ég hef ekki séð neinn benda á neitt sem borgarstjórnarflokkur VG hefur gert rangt. Engin gagnrýni hefur komið fram. Ekkert.

Ég held að við hefðum fundið harkalega fyrir því ef VG hefði ekki verið með öflugt fólk í minnihluta. REI málið ber þar hæst. Samt les maður fólk sem notar það mál sem rök fyrir að kjósa ekki “fjórflokkinn”. Enginn munur gerður á því hvorum megin fólk stóð í því máli.

Verði niðurstaðan eins og það bendir til í dag þá er það út í hött. Ef draumar og vonir stuðningsmanna Besta flokksins verða ekki að veruleika þá verður Sóley Tómasdóttir ein með sjónarmið VG í borgarstjórn og ég held að það sé ekki nóg. Ég vil hafa Þorleif með henni og Líf ætti að fylgja með. Þetta er fólk sem getur veitt aðhald þegar þess þarf, þegar ráðist er á velferðarkerfið og menntakerfið. Við einfaldlega þurfum á þeim að halda.

Hér er annars listi frá Elínu sem ætti, ef réttlætið sigraði, líka að enda í borgarstjórn:

Á síðasta kjörtímabili hefur VG meðal annars:
Fengið samþykkt að orkuverð OR verði gert opinbert.

Fengið samþykkta hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavíkurborg.

Fengið samþykkt rannsókn á stjórnsýslu og stjórnkerfi borgarinnar.

Komið í veg fyrir að Orkuveitan lenti í klóm Hannesar og Bjarna.

Fengið samþykkt að afnema forréttindi borgarfulltrúa og valinna embættismanna varðandi sumarbústaði.

Fengið samþykkt að atvinnulaust fólk fái frítt í sund og á bókasöfn.

Spornað gegn því að Björgólfur Thor Björgólfsson eignaðist Hallargarðinn.

Fengið samþykkt að barnafólk á fjárhagsaðstoð fái desemberuppbót.

Stöðvað einkavæðingu á Droplaugarstöðum.

Fengið samþykkta tillögu um árlega borgarafundi með borgarbúum og borgarfulltrúum.

Fengið samþykkt að styrkja Barnverndarnefnd um 3 stöðugildi.

Fengið samþykkt að árið 2010 er tileinkað velferð barna.

Fengið samþykkt að stofnaður var aðgerðarhópur um velferð barna.

Ítrekað fengið samþykkt aukið fjármagn til aðgengismála.

Fengið samþykkt að fjölga atvinnutækifærum fyrir ungt fólk með auknu fjármagni.

Fengið samþykkt að stofna námskeið í notkun Strætó fyrir börn í 3.-4. bekk .

Fengið samþykkt að bæta stöðu utangarðsfólks.

Fengið samþykkt að auka táknmálstúlkun á viðburði borgarinnar.

Fengið samþykkta hlutlausa úttekt á kynbundnum launamun í borginni.

Fengið samþykkt að skólamáltíðir séu á sama verði í öllum skólum og að aðeins er greitt fyrir tvö börn.

Endurmetið skipulag á Hólmsheiði í þágu grænna svæða.

Það virðist þurfa að minna fólk á þessa hluti.