Kosningum frestað eða fjölgað

Í dag hafa komið fram tvær hugmyndir varðandi kosningar til stjórnlagaþings sem ég er ósammála.

Fyrri hugmyndin er að fresta kosningunum þar til í janúar og þar með upphafi stjórnlagaþings. Frambjóðendur hafa skipulagt sig eftir ákveðnum forsendum. Reyndar myndi þetta væntanlega ekki hafa mikil áhrif á mig en sumir þurfa að hugsa um vinnu og aðrir um nám. Ég sé líka ekki að kosningabarátta í jólavertíðinni myndi verða til þess að kjósendur gætu frekar kynnt sér frambjóðendur. Það myndi held ég fyrst og fremst draga athyglina frá henni.

Sem leiðir að seinni hugmyndinni. Það væri skelfilegt að fara í kosningar um aðildarviðræður að ESB á sama tíma og kosningar verða til stjórnlagaþings. Það er nógu erfitt fyrir frambjóðendur að ná til kjósenda þó fjölmiðlar fyllist ekki um leið af ESB umræðu. Ég er því andvígur þeirri hugmynd.