Galli á stjórnlagaþingsvef DV

Nú er ég jákvæður fyrir vefnum sem DV hefur sett upp um stjórnlagaþingið, eins og áður hefur komið fram, en það er einn galli sem er að ergja mig. DV hefur valið að setja upp lista yfir mest skoðuðu frambjóðendurnar og greinarnar. Hið síðarnefnda er reyndar ekkert sérstaklega slæmt í sjálfu sér en hið fyrrnefnda er líklegt til að styrkja enn frekar þekkta frambjóðendur. Betra væri að frambjóðendur væru bara birtir handahófskennt og birta eins greinar frambjóðenda þannig.

En þetta er líka gallað kerfi af því að þetta býður upp á misnotkun og mér sýnist svoleiðis vera í gangi. Sami einstaklingurinn er með mest lesnu greinina og mest skoðaða prófílinn. Það er spurning hvort að það dugi að rílóda sjálfur síðuna sína eða hvort maður þarf hjálparkokka eða eitthvað annað til þess. En þetta er allavega ástæða til að hverfa frá þessu kerfi.