Svipan: Írski lýðveldisherinn og RIRA

Það er svolítið undarleg frétt á Svipunni um Írska lýðveldisherinn. Það er greinilegt að sá sem tók að sér að þýða frétt af Guardian þekkir ekkert til sögunnar á Norður Írlandi. Í fréttinni er sagt að IRA ætli að ráðast á banka. Þar stendur líka:

IRA var í raun lagt niður, með samningaviðræðum, en þeir hundrað baráttumenn sem enn eru í hópnum hafa ekki getað tekið við öllum þeim sem nú vilja ganga til liðs við samtökin aftur.

Í fréttinni á Guardian er tekið fram að samtökin sem eru að hóta árásum á banka er ekki það sem við köllum IRA heldur klofningshópur frá árinu 1997 sem kallast Real IRA. Þessi hópur varð alræmdur árið 1998 þegar hann sprengdi bíl í Omagh með þeim afleiðingum að 29 manns létust. Reiðin sem varð í kjölfarið fór langt með að tryggja að friðarsamkomulagið hélt. Þegar RIRA og Provisional IRA er ruglað saman eins og Svipunni þá kemur bara vitleysa út. Þarna er látið eins og RIRA hafi sömu stöðu PIRA hafði meðal lýðveldissinna en það er langt frá því. Þarna eru líka rangfærslur um aðgerðir Breta á Norður-Írlandi.

En það sem er náttúrulega verst í greininni er aðdáunin sem virðist skína undir á starfsemi RIRA. Þetta er bara hrottar og morðingjar og þeir batna ekkert við það að þeir vilji ráðast á banka.