Prúðuleikarar Jason Segel

Í gær fórum við Eygló út að borða og í bíó á meðan Sóley frænka (ein af mörgum reyndar með því nafni) passaði Gunnstein. Eftir góðan mat á Ruby Tuesday fórum við í Laugarásbíó. Myndin sem varð fyrir valinu, eða myndin sem var ástæðan fyrir bíóferðinni, var Prúðuleikararnir.

Sá sem ber helst ábyrgð á nýju Prúðuleikaramyndinni er Jason Segel. Í Forgetting Sarah Marshall sá maður ástríðu hans fyrir brúðum og nú fékk hann tækifæri til að vinna með merkilegustu brúður allra tíma. Það er um leið ekki erfitt að sjá hliðstæðu milli persónunnar Walter og Jason Segel sjálfs.

Nú er ég mikill Prúðuleikaraaðdáandi þannig að ég er kannski gagnrýnni en flestir. Ég hef til dæmis fylgst vel með þeim undanfarin ár en það er mikill misskilningur að þeir hafi legið í dvala. Ýmsar sjónvarpsmyndir, styttri og lengri, hafa verið gerðar. Engin þeirra hefur verið nein snilld en oft skemmtilegar. A Muppet Christmas: Letters to Santa er væntanlega best af þeim. Þannig að í mínum huga þurfti þessi mynd helst að slá út þær myndir frekar en að vera jafn góðar og þær gömlu.

Það sem ég vissi fyrir var að söguþráðurinn er ekki frumlegur. Það sem er verst er að hann er í raun sá sami og í It’s a Very Merry Muppet Christmas Movie frá árinu 2002. Mér þótti það bara óþarfi. Fyrir utan þetta er líklega stærsti galli myndarinnar sá að það er of mikil áhersla á mannfólkið og það, sérstaklega “kærastan”, er einstaklega óspennandi. Illmennið nær sér heldur aldrei á strik og mig grunar að það sé vegna þess að söguþræðinum var breytt (það átti að koma í ljós að illmennið væri í raun Kermit í dulargervi að reyna að fá Prúðuleikarana aftur saman).

Myndin er líka endalaus “heiðrun” á gömlu Prúðuleikaraþáttunum. Það er eiginlega of langt gengið í því öllu (og um leið hunsað flest sem gerðist eftir að þeir þættir hættu).

Ég get ekki sagt að þessi mynd hafi verið jafn mikið betri og síðustu Prúðuleikaramyndirnar. Ég hló hins vegar oft og mikið. Mest líklega að óvæntasta gestahlutverkinu (sem var haldið nokkuð leyndu). En mér fannst þetta ekki vera þannig sterk mynd að Prúðuleikararnir komist á fulla ferð. Ég vona að það verði meira gert með þá en ég veitt ekki hvort það nær að vera meira en hefur hvorteðer verið í gangi síðustu árin.