Útskriftardagur

Í dag er útskrift – eða brautskráning – hjá mér. Reyndar bara lítil. Ég var að klára diplómunám í opinberri stjórnsýslu sem ég ákvað að taka meðfram hagnýtu menningarmiðluninni. Mér þótti það passa vel við annað nám mitt.

Ég á ekki erfitt með að ákvarða hvað mér þótti áhugaverðast í náminu en það var stjórnsýslurétturinn. Ég er líka nokkuð viss um að það var líka eitthvert gagnlegasta námskeið sem hef tekið. Ég hafði vissulega einhvern grunn og reynslu í þessum málum en þarna jók ég skilning minn bæði og dýpkaði. Það þýðir reyndar að maður andvarpar mjög innilega þegar maður heyrir fólk tala af meira kappi en viti um hluti eins og andmælarétt og vinnuskjöl.

Ég mun ekki mæta á svæðið í dag. Ég hef gert það tvisvar áður og þótti það ekki svo æðislegt að mig langi að gera það aftur. Reyndar hefði verið tiltölulega auðvelt að mæta, fara upp á svið og ganga beint út þar sem Stjórnmálafræðideild er frekar snemma í röðinni. En þá móðgar maður reyndar kórinn.

Ég má ná í skírteinið mitt á mánudag. Það ætti að duga.