Lýsigagnakrapp

Titill sáttur í grein Cory Doctorow Metacrap.

Ég er að skrifa um og lesa um opinn aðgang þessa daganna (sjá líka ráðstefnu á morgun). Að sjálfsögðu eru lýsigögn hluti af þessum skrifum öllum saman. Fyrir þá sem ekki vita eru lýsigögn “gögn um gögn”. Þau segja þér til dæmis hver höfundurinn og titillinn er. En það sem kemur mér á óvart við það sem ég er að lesa er að allir virðast greinahöfundar gera ráð fyrir að lýsigögn séu eitthvað sem standi óháð gögnunum í stað þess að vera hluti af þeim.

Kannski er ég bara mengaður af mp3 leiðinni. Þegar ég fæ nýjan geisladisk þá byrja ég á því að setja hann á mp3 form til þess að hafa hann aðgengilegan í tölvunni sem ég spila alla mína tónlist úr. Hluti af því að búa til mp3 lög er að skrá upplýsingar um lögin, plötuna og tónlistarmennina. Þessar upplýsingar verða síðan hluti af mp3 skránni (eða er skrá sem er innlimuð í mp3 skránna). Þannig verða þessar upplýsingar aðgengilegar hvar sem ég vil nota skránna – hvort sem það er í farsímanum mínum eða tölvunni.

Þegar kemur að því að skrá lýsigögn um fræðigreinar í gagnagrunnum þá virðist hugsunin vera allt önnur. Þar eru gögnin skráð í gagnagrunninn en ekki í skránna sjálfa. Það þýðir að þegar ég tek inn fræðigreinar í gegnum þessi gagnasöfn þá get ég ekki treyst því að lýsigögnin séu skráð í skjalið sjálft sem gerir alla mína umsýslu með skjalið óþægilegri – ef ég vil varðveita það sjálfur til langframa þá þarf ég að skrá þessar upplýsingar sjálfur. Ég veit ekki hve oft ég hef fengið í hendur PDF skjöl þar sem titillinn er “document1” og skrifstofustarfsmaðurinn sem bjó til skjalið er kallaður höfundur.

Í því sem ég er að lesa um opinn aðgang er fókusinn að því er virðist allur á að lýsigögnin sjálf séu á aðgengilegu og stöðluðu formi í gagnagrunnum í stað þess að fara þá leið sem ég teldi rökréttari sem er að skrá gögnin í skrárnar og láta gagnasöfnin síðan lesa upplýsingarnar úr þeim. Þetta er sérstaklega mikilvægt ef greinarnar eru með algjörlega frjálsa dreifingu.

Ég var að spjalla við Eygló um þetta út frá sjónarmiðum skjalastjórnar og skv. henni þá er hugsunin þar einmitt þannig að lýsigögnin eru ekki sett í skrárnar heldur í skjalastjórnargagnagrunninn. Til langframa varðveislu teldi ég miklu betra að setja lýsigögnin í skrárnar sjálfar.

Ég tek fram að þessi tegund skráningar þarf ekki að koma í staðinn fyrir að skrá upplýsingarnar í gagnagrunn heldur meðfram slíkri skráningu.