30.000+ rafbókum dreift á rúmum sólarhring

Það er reyndar engin leið til þess að fylgjast nákvæmlega með þessu en ég get sagt með vissu að pakki með 104 bókum af Rafbókavefnum hafi verið dreift að minnsta kosti 340 sinnum frá því á fimmtudagsmorgun. Vonandi oftar og víðar en ég get ekkert fylgst með því.

Ég setti pakkann sjálfur bæði á eigin vef og sem torrent á The Pirate Bay. Ég valdi síðarnefnda vefinn af þeirri einföldu ástæðu að hann er öllum opinn. Fólk þarf ekki einu sinni að skrá sig inn til þess að ná í pakkann. Mér var síðan sagt að pakkinn hefði fljótlega birst á íslenskri torrent síðu. Þaðan hef ég fengið tölur og er pakkinn kominn með yfir þrjúhundruð niðurhöl.

Augljóslega er þessi dreifing allt annars eðlis en þegar fólk tekur inn stakar bækur á Rafbókavefnum. Þá getur maður verið nokkuð viss um að fólk er að velja sér bækur sem það stefnir að því að lesa. Þegar fólk tekur en svona stóra pakka þá veit maður ekkert um slíkt. Ég vona allavega að þeir sem hafi tekið þessa pakka inn stefni annað hvort að því að lesa sjálft eða gefa þeim sem muni lesa.

Einhverjir kunna að spyrja hvort það hafi verið þörf á því að setja efnið á sjóræningjasíður – gat ég ekki bara dreift þessu í gegnum eigin vef? Niðurhölin sýna það að minnsta kosti fimmtán sinnum fleiri hafa tekið pakkann inn á sjóræningjasíðunum en af mínum vef (niðurhalið er líka tíu sinnum meira en samanlagt niðurhal af Rafbókavefnum fram að þessu). Um leið hefði það vel getað gerst að Rafbókavefurinn hefði farið á hliðina ef allt þetta fólk hefði tekið þennan pakka beint þaðan. Þetta er niðurhal sem er samanlagt vel yfir tíu gígabæt.

Þeir sem ná í torrentskrár hjálpa sjálfir til við niðurhal. Það er líka ástæðan fyrir því að þessi aðferð er vinsæl meðal þeirra sem dreifa frjálsum og opnum hugbúnaði. Um leið eykur þetta hraðann á niðurhalinu mikið.

Núna vona ég bara að þetta sé snjóbolti sem muni bæta áfram við sig. Fleiri og fleiri muni fá þennan pakka í hendurnar og dreifa honum áfram. Það sem væri martröð bókaútgefenda og bóksala er draumsýn mín.

Menningararfur í sjóræningjahöndum – Grein í Fréttatímanum.