Framboð og eftirspurn á rafbókum

Fyrir utan eitt námskeið í Þjóðhagfræði í framhaldsskóla hef ég ekkert lært í hagfræði. Mér skilst þó að hagfræðingar séu sammála um að aukið framboð á vöru eigi að lækka verðið á henni. Síðan ð á aukin eftirspurn að hækka verðið.

Um leið og það er búið að búa til eina rafbók er í raun komið ótæmandi framboð af henni. Þetta vita neytendur þó þeir orði það kannski ekki svona. Eftirspurninni er alltaf fullnægt. Sumir halda að það hafi engin áhrif á verðið.

Þó framboðið af stökum rafbókum sé ótæmandi þá á það ekki við um titlana sem eru í boði. Líklega væri hægt að búa til lista yfir flestallar þær íslensku rafbækur sem standa rafbókalesendum til boða. Listinn yfir bækur sem standa stærsta hóp rafbókalesara – jafnvel meirihluta þeirra – er ennþá styttri. Kindle eigendur geta keypt rafbækur á Emmu (alla titla) og Skinnu (einhverja titla) en ekki bækur frá Forlaginu. Það er óþarfi að taka fram að þeir geta tekið inn allar bækur af Rafbókavefnum fyrir Kindle.

Markaðslögmálin virðast virka ágætlega. Á topplista Skinnu eru bækur frá nýrri bókaútgáfu – sem heitir Rúnatýr – í meirihluta. Þær bækur eru umtalsvert ódýrari en þær sem Forlagið hefur í boði og þær er hægt að fá fyrir Kindle. Stóru íslensku bókaútgáfurnar hafa búið til pláss fyrir nýja aðila á markaðnum með þrjósku sinni og það er verið að fylla upp í það.

Kannski væri best ef stóru íslensku bókaútgefendurnir myndu þrjóskast sem lengst við að bjóða upp á bækur sínar fyrir Kindle og á sómasamlegu verði. Þó geta litlu aðilarnir orðið aðeins stærri.