Einkaréttur á verkum utan höfundaréttar

Ég hef verið að lesa höfundaréttarlög sem fyrr. Í þetta sinn er ástæðan sú að ég vildi vita hvort einhver gæti eignast einhvers konar einkarétt á verkum sem eru utan höfundaréttar. Minn skilningur á lögunum er að ekki sé hægt að eignast slíkan rétt án þess að hafa breytt verkinu sjálfu á einhvern hátt (sbr. Vísur Vatnsenda-Rósu).

Ég sé eina undanþágu í lögum:

Hafi verk ekki verið birt almenningi innan verndartímabils skv. 43. og 44. gr. skal sá sem fyrst birtir verkið að því liðnu öðlast hliðstæðan rétt til fjárhagsnytja af verkinu og höfundar hafa samkvæmt ákvæðum laga þessara. Verndin helst uns 25 ár eru liðin frá næstu áramótum eftir birtingu.

Þetta á væntanlega við t.d. um fuglabók Benedikts Gröndal. Hans höfundaréttur er löngu liðinn en þarna fær útgefandi sanngjarna vernd.

Þegar ég tek texta sem eru komnir úr höfundarétti og geri úr þeim rafbók (og reyndar minniháttar lagfæringar á stafsetningu í einhverjum tilvikum) get ég ekki sé að ég eignist nokkurn einkarétt á rafbókunum.

Það er þó hægt að ímynda sér að, ef ég vildi, þá ætti ég einhverja vernd samkvæmt þessu:

Sá sem framleiðir skrár, töflur, eyðublöð, gagnagrunn eða svipuð verk sem hafa að geyma umtalsvert safn upplýsinga eða eru árangur verulegrar fjárfestingar hefur einkarétt til eintakagerðar eða birtingar verks í heild eða að verulegum hluta. Endurtekinn og kerfisbundinn útdráttur og/eða endurnýting óverulegs hluta af gagnagrunni er óheimil ef þær aðgerðir stríða gegn venjulegri nýtingu hans eða ganga með óeðlilegum hætti gegn réttmætum hagsmunum framleiðenda gagnagrunnsins.

Einkaréttur til þeirrar sérstöku verndar sem kveðið er á um í grein þessari helst í 15 ár frá næstu áramótum eftir að verkið varð til. Ef verkið er birt innan greinds verndartímabils skal verndin þó haldast í 15 ár frá næstu áramótum eftir að gagnagrunnurinn telst birtur almenningi.

Ef Rafbókavefurinn teldist gagnagrunnur og það stríddi gegn eðlilegri notkun hans að endurbirta efnið þá gæti ég kannski kallað eftir vernd (sem ég geri ekki).

Ég hef sama skilning á því þegar ég nýti efni af Tímarit.is. Ég tek þar einstaka sögur sem eru fallnar úr höfundarétti, algerlega ómerkilegan hluta heildarinnar, og geri úr þeim rafbækur. Ég sé ekki að ég brjóti nokkur ákvæði höfundalaga með slíku. En hvað ef maður tekur heilar bækur af Bækur.is? Er hægt að biðja um fimmtán ára vernd skv. þessu ákvæði? Ég er ekki viss.

Nú væri gaman að heyra í lögfræðingi.