Nýir höfundar, rafbækurnar og gagnrýnendurnir

Ég las einhvern tímann grein um hvernig fer fyrir nýjum handritshöfunum í Hollywood. Þeir koma þangað með handritið sem þeir hafa lagt allt sitt í með vonir um að það verði gerð kvikmynd úr því. Það sem gerist er að handritið gengur á milli manna, ef höfundurinn er heppinn, og í kjölfarið hringir einhver í hann og spyr hvort hann vilji skrifa þriðju myndina í einhverri soralega leiðinlegri seríu. Draumahandritið er aldrei framleitt.

Það er víst ákaflega erfitt fyrir nýja höfunda að fá bók útgefna á Íslandi. Lukkulega hafa rafbækur þann möguleika að steypa útgáfuheiminum á hvolf. Nýir höfundar þurfa ekki einu sinni að leggja í prentkostnað til að koma verkum sínum í umferð (leiðbeiningar um rafbókagerð má finna á Rafbókavefnum). Það er hægt að gefa út rafbók, hafa hana ódýra eða jafnvel ókeypis og sjá hvort hún komist á flug. Fólk er þegar farið að gera þetta (t.d. á Emmu) en mig grunar að það gæti jafnvel orðið flóðbylgja bráðum.

Mér finnst að í dag sé fullkominn tími fyrir einhvers konar höfundasamlög þar sem ungir höfundar hjálpast að með því að gagnrýna í verk hvers annars, síðan prófarkarlesa og koma út. Ég veit ekki hvort það sé rétt að kalla útgáfuna Rúnatýr slíkt samlag en allavega sýnist mér þetta drifið áfram af fólki með höfundametnað. Þeirra stefna virðist vera að virka því þar er verið að selja töluvert af bókum (í gegnum Skinnu).

Kannski að gagnrýnendur (sérstaklega á netinu) ættu núna að vera duglegri að kalla eftir bókum frá þessum ungu höfundum sem er farnir að gefa út. Eru annars einhverjir að gagnrýna þessar bækur sem eru bara að koma út á rafbók frá áður óútgefnum höfundum? Ættu druslur og subbukallar ekki að taka þennan slag (biðst fyrirfram afsökunar á því að kalla gagnrýnendur druslur og subbukalla)? Kallið eftir að fá þessar rafbækur og leitið þær jafnvel uppi. Hjálpið væntanlegum lesendum að finna gullið í þessum nýja útgáfuheimi.