Vafasöm krafa um hæfileika til styrkumsókna?

Ég sé að Facebook vinir mínir taka þátt í rökræðu um eftirfarandi ummæli Guðmundar Magnússonar fyrrverandi forstöðumanns Þjóðmenningarhússins:

Það er verið að auglýsa eftir lektor í sagnfræði við Háskóla Íslands. Fyrir utan hefðbundnar menntunarkröfur og kennslureynslu er ætlast til þess að umsækjendur sýni fram á ‘hæfni til að afla styrkja til rannsókna.’ Svolítið skondið í akademísku starfi í ríkisháskóla. Og hvað felst í þessu? Varla það eitt að kunna að útfylla eyðublöð til að senda á rannsóknarsjóði? Mér finnst að þetta þarfnist nánari skýringa.

Ég get ekki ímyndað mér að nokkur sem þekkir til háskólaumhverfisins geti hneykslast á þessu. Það er einfaldlega stór hluti af starfi háskólakennara að sækja um styrki. Rannsóknir kosta peninga – líka í hug- og félagsvísindum. Ég get ímyndað mér að starf háskólakennara væri töluvert vinsælla ef þeir hefðu áskrift af peningum til að vinna þær rannsóknir sem þeir vildu.

Það að sækja um styrki er líka ekki bara að “fylla út eyðublöð”. Það er t.d. ekki öllum gefið að setja fram rannsóknarverkefni á skýran og greinilegan hátt sem er bráðnauðsynlegt. Það þarf líka oft hæfni við að afla samstarfsaðila og margt fleira. Þetta er ekki einfalt og ég held ég geti fullyrt að þetta sé eitt óvinsælasta, ef ekki alóvinsælasta, verkefni háskólakennara.

Satt best að segja dettur mér helst í hug, út frá orðum Guðmundar, að hann sé að reyna að koma höggi á einhvern. Spurning hvort það sé einhver þarna í sagnfræðinni í HÍ sem kemur nálægt þessari stöðuveitingu eða einhver sem hann grunar að muni sækja um starfið. Allavega er þarna verið að reyna að gera fullkomlega eðlilega auglýsingu vafasama.