SMÁÍS blekkir

Það þyrfti heila grein til að fjalla um hvernig SMÁÍS reyndi um helgina að nýta sér, og um leið kynda undir, fordóma Íslendinga gegn Austur-Evrópubúum með auglýsingu sinni. Ég vildi hins vegar koma með einfalda athugasemd um staðhæfingarnar um tengsl óheimilaðrar dreifingar á höfundarvörðu efni við (hættuleg) glæpasamtök.

Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að ég hef skoðað þessi mál í fjölmörg ár og stefni á að skrifa einhvern tímann fræðigrein um málið. Ég hef þegar haldið einn fyrirlestur um þessi mál í tengslum við rafbækur.

Hér áður fyrr var sjóræningjastarfsemi mikið til tengd því sem við getum kallað alvöru glæpasamtök. Sumsé fólk sem framleiddi og dreifði efni í hagnaðarskyni. Í dag hefur þetta að miklu leyti snúist við. Þeir sem eru að dreifa efni, til dæmis í gegnum torrent síður, eru að miklu leyti aðdáendur þeirra listamanna sem eiga verkin sem um ræðir. Það eru hins vegar mörg dæmi um fólk sem hefur reynt að græða á (eða allavega vinna upp kostnað) að búa til umhverfi þar sem svona dreifing fer fram. Ýktasta dæmið er væntanlega Megaupload maðurinn Kim Dotcom (sem er dáltið langt frá því að vera hættulegur).

Ég ætla að giska að mest af því höfundavarða efni sem er dreift á óheimilan hátt á Íslandi í dag sé fengið í gegnum íslenskar torrent síður. Þar eru í versta falli einhverjir íslenskir tölvunördar að græða pening (í gegnum framlög eða auglýsingasölu).

Þá spyr fólk: Hvað með fólkið sem setur þetta á netið erlendis? Eru það ekki hættulegir glæpamenn? Ég held ekki. Þeir sem dreifa til dæmis sjónvarpsþáttum, kvikmyndum, tölvuleikjum og tónlist eru fyrst og fremst tölvunördar sem vilja fyrir og fremst “heiðurinn” sem felst í að dreifa efni. Heiðurinn er þá fyrst og fremst metinn út frá því hver varð fyrstur að dreifa efninu og hvernig gæðin á því voru. Það mætti segja að þeir sem dreifa efni löglega mættu taka sér þetta til fyrirmyndar og reyna að koma efninu fljótt til notenda og í sem mestum gæðum.

Vandamálið við SMÁÍS auglýsinguna er því ekki bara að hún er rasísk heldur líka að hún er röng. Það að heyja þessa baráttu á öðrum forsendum en þeim að þeir sem búa til verk eigi skilið að fá borgað fyrir það er dæmt til að mistakast.