Hvernig rafbókalesara á ég að kaupa – draumarafbókalesarinn minn

Ég er oft spurður hvernig rafbókalesara fólk eigi að kaupa sér og ég hef aldrei skýr svör.

Kindle er frábært tæki. Það hins vegar læsir mann inni í Amazon hagkerfinu og maður getur ekki keypt íslenskar rafbækur frá stóru forlögunum (en maður getur keypt fjölmargar íslenskar rafbækur á Emmu og Skinnu).

Gallarnir hverfa þó ef maður er til í að taka afritunarvarnirnar af, bæði af Amazon rafbókunum og íslensku Epub rafbókunum frá stóru íslensku forlögunum (það væri reyndar það skásta sem gæti komið fyrir þau – en hver nennir að kaupa rafbækur af þeim á því verði sem þeir bjóða upp á). Það er ákaflega auðvelt ef maður vill standa í því. Töluvert auðveldara allavega en að standa í þessu Adobe ID brasi í mörg ár.

Kobo, Nook og fleiri eru mjög fínir lesarar sem geta væntanlega opnað allar íslenskar rafbækur. En maður missir af Amazon sem er besta rafbókabúðin.

Spjaldtölvur eru örugglega fín leikföng en eru, að mínu mati, annars flokks leið til þess að lesa rafbækur.

Draumarafbókalesarinn minn er líklega ekki til. Hann væri líklega drifinn af Android. Hann væri hins vegar með rafblekskjá. Maður gæti sett þar inn forrit til þess að lesa og versla við Amazon, Barnes and Noble og hvaðeina – jafnvel Apple. Hann myndi þó helst vera þannig að maður gæti haft yfirlit yfir allar bækurnar sínar í einu umsýsluforriti sem síðan gæti þá ræst viðeigandi lesaraforrit þegar maður velur bók.

Jú, reyndar væri betra að hafa rafbækur sem eru allar á opnu formi sem hvaða rafbókalesari gæti lesið en ég er að miða við praktíska lausn miðað við ástandið sem er á þessum málum í dag.