Sighvatur, lækin og bloggin

Ég verð að játa að það fer í taugarnar á mér að Sighvatur Björgvinsson hefur ákveðið að stimpla mig, vegna fæðingarárs míns, sem uppsprettu alls ills í íslensku þjóðfélagi síðustu árin. Reyndar á hann væntanlega ekki við mig persónulega enda tók ég verðtryggt lán af því að mér þótti alltof mikil áhætta í gengislánum (eftir á að hyggja var þetta náttúrlega slæm ákvörðun því skuldirnar hefðu bara verið dæmdar af mér) og hef aldrei misst út úr afborgun. En mér finnst það bara voðalega ósanngjarnt að ætla að stimpla heila kynslóð. Alveg eins og mér finnst það ósanngjarnt að tala um klámkynslóðina. Þar að auki þykir mér ósanngjarnt að stimpla alla kynslóð Sighvats eins og margir gera
Það fer líka í taugarnar á mér hvað Sighvatur ofnotar upphrópunarmerki. Sérstaklega þegar hann setur þau þrjú saman. “Multiple exclamation marks are a sure sign of a diseased mind.” skrifaði Terry Pratchett.

En það fer einhvern veginn mest í taugarnar á mér að Sighvatur ruglar mikið þegar hann er að tala um vefinn. Hann talar um blogg og bloggheima þegar hann er greinilega að tala um athugasemdir við fréttir. Hann heldur að fólk sem ýtir á “like” hnappinn við greinina hans séu að lýsa yfir stuðningi við hann þegar mörgum finnst þetta þægileg leið til þess að dreifa greininni hans (og gera grín að honum í leiðinni).

Nú síðast segir Sighvatur að honum skiljist “að um níu þúsund manns hafi lýst stuðningi sínum á neti Vísis við greinarnar [s]ínar tvær í Fréttablaðinu og að slíkt hafi ekki áður sést þar á bæ.” Þetta er neyðarlegt. Fyrir utan að hann misskilur þetta sem stuðning þá eru langt frá því að samanlögð “like” á greinarnar nái níu þúsund (og þó svo væri þá þarf verslunarmiðstöðvatalningu – milljónir Íslendinga hafa komið í Smáralind – til að álykta að rétt væri að leggja saman tölurnar til að fá heildarfjölda stuðningsmanna). Það gæti reyndar verið að einhverjir hafi “unlike’að” greinarnar eftir að þeir sáu að Sighvatur taldi þá til stuðningsmanna sinna. Það er líka undarlegt að maðurinn skuli treysta á að fólk segi honum hvað hann hafi fengið mörg “like” í stað þess að kíkja sjálfur á tölurnar.

Ég fatta ekki hvað Sighvatur er að reyna að gera með þessum skrifum. Er hann að reyna að beina athyglinni frá sér og öðrum stjórnmálamönnum “sinnar kynslóðar” sem leiddu Davíð Oddsson til valda? Mér dettur það allavega helst í hug.