SMÁÍS afneitar nútímanum

Ég sá þessa mynd á Flickmylife. Hún er óljós en textinn er á þessa leið (símanúmerið og tölvupóstfangið var sérstaklega illlesanlegt):

Ekki er leyfilegt að koma með myndavél eða upptökubúnað af neinu tagi inn í þetta kvikmyndahús. Litið verður á það sem tilraun til að brjóta gegn höfundarétti. Reka má á dyr hvern þann sem það gerir og lögreglan getur gert viðkomandi búnað upptækann. Við biðjum áhorfendur um að vera á verði gagnvart þannig starfsemi og tilkynna hvert tilfelli sem vekur grunsemdir til starfsfólks kvikmyndahússins eða til SMÁÍS í síma 861-0140 eða tölvupóst smais@mi.is
SMÁÍS

Hugsið um þetta augnablik. Það eru ár og dagar síðan ég hef farið inn í kvikmyndahús án þess að vera með myndavél og upptökubúnað – símann minn. Sama gildir væntanlega um nær alla aðra bíógesti. Samkvæmt þessu má reka okkur út og lögreglan mætti gera búnaðinn upptækann. Ég efast stórlega um að þetta sé satt og það væri áhugavert að sjá hvernig þetta er rökstutt með vísan í lög. Allavega er orðalagið fullkomin vitleysa. Það væri alveg hægt að orða þetta betur, sumsé að segja að hver sem verði uppvís að notkun upptökutækja eða myndavélar í bíóinu megi eiga von á hörðu. Bjarta hliðin er sú að næst þegar ég sé einhvern sem svarar í snjall- eða myndavélasíma þá get ég hringt í Snæbjörn hjá SMÁÍS og hann lætur gera símann upptækann. Það væri réttlát refsing fyrir símnotkun í bíói.

En hve líklegt er það í alvöru að einhver mæti í íslenskt bíó og reyni að taka upp mynd? Fyrir allar erlendar myndir þá væri hugmyndin fullkomlega sturluð því það væri engin leið til þess að græða á slíku. Hver úti í hinum stóra heimi hefur áhuga á að fá mynd með íslenskum texta? Og hvernig ætti nokkur að ná að græða nógu mikið á sölu á slíkum sjóræningjaupptökum á íslenskum markaði til þess að áhættan borgi sig? Eru í alvörunni nógu margir sem vilja borga nógu mikið fyrir íslenskan texta á lélegri kvikmyndahússupptöku til þess að nokkur myndi vilja standa í þessu. Augljóslega ekki. Sömuleiðis væri markaðurinn frekar lítill fyrir íslenskar myndir teknir á þennan hátt. Hefur eitthvað svona komið nokkurn tímann upp á Íslandi?
Þetta minnir mig á þegar SMÁÍS höfðu eftirfarandi skilaboð á heimasíðu sinni:

Allar upplýsingar sem fram koma á vef SMÁÍS er eign SMÁÍS, nema annað sé sérstaklega tekið fram eða leiða megi af eðli máls. Óheimilt er að setja krækju (link) á vef SMÁÍS af annarri vefsíðu nema með skriflegu samþykki samtakanna. Skriflegt samþykki SMÁÍS þarf til að endurbirta, afrita eða dreifa upplýsingum sem fram koma á heimasíðu SMÁÍS

Þarna er fullkomin afneitun á eðli vefsins. Það er ekki hægt að ímynda sér meiri vitleysu en að ætla að banna fólki að setja hlekki á vefsíður.

Þess má geta að í dag er forsíða heimasíðu vefs SMÁÍS teygð og asnaleg jpg mynd. Þar áður hafði síðan verið óbreytt í einhver ár og ég var á ráðstefnu í hittifyrra þar sem Snæbjörn hélt því fram að ástæðan fyrir uppfærsluleysinu væri sú að síðan hefði verið hökkuð (án þess þó að nokkur breyting hefði verið gerð á síðunni). Það var réttilega hlegið að honum enda var hann í sal fullum af tölvumönnum sem vita vel hve fráleit hugmynd það er að vefur sé hakkaður þannig að ekki sé hægt að laga hann á nokkrum árum.

Þetta eru samtök sem eiga í ákaflega lausum tengslum við tækni nútímans og þá er ekki skrýtið að þeirra leið til að fást við þessa tækni er að berjast gegn henni. Það vottar fyrir því í dag að aðilar samtakanna séu farnir að reyna að græða á tækninni en þeir eru langt á eftir tímanum og reyna enn að tjóðra hana með úreltu viðskiptamódeli sem snýst um að viðhalda landfræðilegum takmörkunum sem eru fullkomlega órökrétt í dag og að rukka fyrir vörurnar eins og enginn sparnaður hafi orðið með stórbættu dreifikerfi.

Ég var í gær að klára að lesa grein um hinn svokallaða Betamax-dóm (Intellectual Property Stories). Það vita þetta kannski ekki allir en þegar myndbandsupptökutæki komu fyrst á markað barðist sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðurinn harkalega gegn þeim. Lukkulega töpuðu þeir málinu fyrir Hæstarétti Bandaríkjanna og þingið þar fór ekki þá vitlausu leið sem Íslendingar fóru með því að leggja gjöld á spólurnar. Síðasta áratug eða svo hefur sami iðnaður barist harkalega fyrir því að verja þann stóra markað sem myndbandsupptökutækin sköpuðu í stað þess að sjá þau stórkostlegu tækifæri sem fólust í nýju tækninni.