Steingeldir miðlar á vefnum

Ég leit til Ásgeirs um helgina og fyrir utan að rífast um stjórnarskrármál þá ræddum við helst um hve miðlar á vefnum eru steingeldir og kassalaga. Það er einfaldlega enginn að gera neitt spennandi. Nær allt snýst um að koma texta á framfæri. Hvar er fólkið sem hefur skilning á vefnum og áttar sig á möguleikum sem tækniframfarir eru að færa okkur?
Ég horfi ekki of á Silfur Egils en í gær sá ég nokkrar mínútur og ég fór að hugsa hvers vegna enginn er að gera svona þætti veflægt. ÍNN er að rembast við gerð á svona þáttum og einhverjir virðast horfa en málið er að útsendingin er óþarfi. Nú spyr fólk væntanlega hvort ég ætlist til þess að menn horfi á slíka þætti í tölvunni. Ég svara: Þú ert kassalaga.

Í dag eru mörg, jafnvel flest, sjónvörp seld með USB tengi. Ef hægt að er að hala niður þætti af vefnum þá er hægt að setja hann á minnislykil og tengja við sjónvarpið. Það er líka hægt að benda á að margar tölvur eru með útgangstengi fyrir sjónvarp, HDMI sérstaklega, og með einni snúru er þá hægt að horfa á efni á sjónvarpsskjá. Sjálfur er ég með einfalda litla sjónvarpstölvu byggða á Raspberry Pi tengda við mitt sjónvarp. Sú tölva er með viðbætur sem gera mér kleift að horfa á Sarpinn hjá RÚV, Veftíví hjá Stöð 2 og margt fleira, þ.á.m. YouTube. Sjónvörpin sjálf eru líka að verða tölvur. Eftir nokkur ár verður það nokkuð hversdagsleg iðja að horfa á myndefni af vefnum í gegnum sjónvörp. Það væri líka áhugaverð tilraun að bjóða upp á svona efni í gegnum VOD.

Það krefst ekki mikilla tækjakaupa að búa til svona efni og fólk með kunnáttu í einfaldri klippingu og upptöku er víða til (m.a. samnemendur mínir úr hagnýtri menningarmiðlun). Það er án efa hægt að finna kostunaraðila víða.

Sama gildir um “útvarp”. Það eru allavega tugþúsundir sem á hverjum degi hlusta á eitthvað í snjallsímum eða mp3-spilurum. Það vill hlusta á áhugavert efni – látið þau fá efni við hæfi.

Ef ég ynni hjá Borgarbókasafninu myndi ég ýta á safnið að fara af stað með bókmenntaþátt. Það væri hægt að gera það hvort sem er sem sjónvarpsþátt eða útvarp. Ef ég væri í Reykjavíkurakademíunni myndi ég ýta á að þau myndu gera þætti um menningu og fræði. Það má nefna að Vantrú hefur verið að gera tilraunir með útvarpsþætti.

Þó flestir vefmiðlar séu í því að dreifa texta þá er enginn vefmiðill þar sem maður getur treyst á því að fá gæðaefni. Það er ekki heldur neinn vefmiðill sem veitir almennilegan möguleika á að fá borgað fyrir að skrifa gæðaefni. Þar er ég hissa að enginn sé kominn af stað með tilraunir með örgreiðslur. Af hverju ekki að hafa möguleika á að bara tíkall fyrir grein? Eða fimmtíu krónur? Hvar er sá möguleiki? Það er til margt fólk sem hefur skrifað vandaðar greinar í áraraðir á vefinn án þess að fá krónu fyrir. Hvar er lausnin?