Hringavitleysa FÍB um reiðhjólakaup

Á vef FÍB má finna reiknivél sem á að segja manni hve langt maður þurfi að hjóla til þess að hjólakaup borgi sig – miðað við bensíneyðslu bílsins manns og ekkert annað. Samkvæmt þessu er bíll núllstærð í kostnaði fyrir utan bensín. Ef FÍB myndi setja þarna inn tölur frá sjálfum sér þá væri kannski hægt að miða við 1,2 milljónir á bíl á ári. Þannig að ef þú getur sparað þér að reka bíl í mánuð þá gætirðu keypt þér hjól sem kostar 100 þúsund, ef þú sparar þér bíl í tvo mánuði geturðu keypt hjól sem kostar 200 þúsund.

Ég skil ekki hvernig FÍB fær það út að hjólakaup þurfi sérstaka réttlætingu á meðan bílakaup þurfa slíkt ekki. Maður þarf farartæki og ef þú getur sparað þér bíl með að hjóla þá geturðu í raun með góðri samvisku keypt allt nema mögulega allra dýrustu hjól vitandi að þú ert að spara formúgu.

Mitt heimili rekur einn bíl. Ég er viss um að margir í okkar sporum telja að þeir þyrftu tvo bíla (en ég gæli frekar við hugmyndina um bíllaust heimili). Í hreinskilni get ég ekki haldið því fram að hjólið mitt komi í veg fyrir að við þurfum annan bíl – það er strætókortið sem reddar því. Það kostar c. 68 þúsund á ári (sparar okkur samkvæmt FÍB allavega rúma milljón á ári). Það sparar mér þar að auki ergelsið við að keyra.