Rímixuð skáldsaga

Eftir að síðasti þátturinn af Game of Thrones var sýndur um daginn byrjaði ég að lesa bækurnar aftur. Ég er enn í fyrstu bókinni enda er ég ekki að flýta mér og að lesa annað um leið. Þegar kemur að fjórðu bókinni brýtur GRRM sögulínurnar í sundur og við heyrum ekkert meira af sumum persónum fyrr en í fimmtu bókinni. Þetta gerði hann til að bókin yrði ekki allt of löng.

Ég fór að hugsa með sjálfum mér hvort það væri ekki hægt að taka einfaldlega og blanda saman köflunum úr þessum tveimur bókum þannig að maður fengi söguna í tímaröð. Það er auðvitað þannig að ef maður fær rökréttar hugmyndir um svona vinsælt efni þá hefur einhverjum öðrum dottið það í hug. Ég gúgglaði og fann nokkrar síður þar sem var fjallað um hvernig hægt væri að lesa bækurnar í tímaröð. Þar voru bæði leiðbeiningar fyrir þá sem höfðu lesið bækurnar áður og líka fyrir þá sem voru að lesa þær í fyrsta sinn (þá þarf aðeins víkja frá tímaröð til að viðhalda óvæntum atburðum).

Ég ákvað að prufa aðra leit til að sjá hvort einhver hefði nú mögulega gengið alla leið og búið til rafbók þar sem köflunum hefði verið endurraðað. Ég fann þá fljótt og örugglega rafbókina A Ball of Beasts (varúð spoilerar – sérstaklega fyrir þá sem hafa bara séð þættina). Þarna eru miklir fyrirvarar um höfundaréttarmál en eftir að hafa lofað öllu fögru geta menn halað niður rafbók með sameinaðri sögu. Ég hlakka til að lesa þetta og er spenntur að sjá hvort það breyti einhverju um sýn manns á söguna.

Þetta er ekki fyrsta dæmið um að aðdáendur hafi breytt bókum höfunda en í raun fyrsta sem ég hef raunverulega áhuga á. Mér þætti skemmtilegt að vita hvað GRRM sjálfum þyki um þetta. Hann hefur talað gegn aðdáendaskrifum en þetta er allt önnur skepna. Ég vil ekki gera rithöfunda ennþá hræddari við rafbækur en þeir eru nú þegar en þetta er nokkuð sem fylgir þeim. Allar afritunarvarnir eru gagnslausar til annars en að fæla ótæknivædda frá og lesendurnir fá gríðarlegt vald yfir textanum ef þeir hafa áhuga á því. Það að halda sig utan rafbókaútgáfu dugar ekki heldur því skönnun og ljóslestur koma textanum líka á vald lesandans.