Netrunner spilaspilið

Ég meina Netrunner kortaspilið eða ccg (collectible card game).

Á þeim tíma sem ég var nörd sem spilaði kortaspilið Magic: The Gathering kom út annað slíkt spil sem hét Netrunner. Það byggði á Cyperpunk heiminum sem var einmitt fyrsti hlutverkaleikurinn sem ég spilaði. Þannig að ég var svolítið spenntur og keypti það. Mig minnir hins vegar að það hafi enginn annar keypt það nema mögulega Bjössi (kannski spilaði hann þó bara með mitt eintak). Það féll alveg í skuggann af Magic og við spiluðum það ekki oft.

Það er eftirminnilegt hve skemmtilegt þetta spil var. Það var líka óvenjulegt að því leyti að í pakkanum sem maður keypti voru stokkar fyrir tvo leikmenn þannig að, ólík t.d. Magic, þá gat maður spilað þetta án þess að kaupa nokkuð meira.

Þrátt fyrir að almennt hafi gagnrýnendur verið á sama máli og ég varðandi gæði Netrunner sökk spilið fljótt og örugglega.

Ég verð að játa að það var ekki fyrren í síðustu heimsókn minni í Nexus sem ég tók eftir því að búið er að endurútgefa spilið í örlítið breyttri mynd. Það kemur núna í kassa eins og borðspil. Það virðist fá jafngóða ef ekki betri dóma en fyrsta útgáfan. Hverjir hafa prufað þetta og hvað finnst ykkur? Og hefur einhver prófað þetta sem hafði líka prufað upprunalega spilið.