Hlutverkaleikir og kennaraverkfallið 1995

Það er líklega ekkert skrýtið en allt þetta tal um kennaraverkfall vekur upp hjá mér minningar um kennaraverkfallið 1995. Það náði bæði til grunn- og framhaldsskóla. Þá var ég í tíunda bekk. Það sem ég afrekaði helst var að spila hlutverkaleiki.

Ég held að það hafi verið á haustmánuðum 1994 þegar Gunnlaugur Starri frændi minn dró mig í að spila. Þegar hann nefndi þetta fyrst hugsaði ég helst til lélegra sjónvarpsmynda frá níunda áratugnum um hve hættulegt Dungeons and Dragons væri en ég lét til leiðast. Það var Þórður Rafn sem stjórnaði spilamennskunni og spilið var Cyberpunk 2020. Ég man ekki nákvæmlega hverjir voru fyrst þegar við vorum að spila – fyrir utan okkur frændurna og Tóta. Líklega var Ásgeir þar en hann datt fljótlega út. Hann hefur aldrei verið svona nörd. Kannski var Svavar með frá upphafi – ég veit ekki. Hemmi datt inn í spilamennskuna fljótlega með sinn ofur-karakter sem var með grunsamlega mikið hæfileikum og vopnum. Eva, sem var þá kærastan hans, spilaði síðan aðeins með okkur.

Um jólin 1994 kom út íslenska “spunaspilið” Askur Yggdrasils. Ég fékk ekki spilið en einhverjir okkar eignuðust það. Það var því spilað um og uppúr jólum ásamt öðrum kerfum. Mér skilst reyndar að margir sem fengu spilið að gjöf hafi gefist upp á því enda vissu þeir ekkert hvernig það virkaði þar sem ekkert spilaborð fylgdi.

Kennaraverkfallið hófst 17. febrúar sem hentaði ágætlega fyrir okkur. Í minningunni þá var þetta eiginlega spilamennska upp á hvern einasta dag. Bjössi bættist við á einhverjum tímapunkti og þar spiluðum við Werewolf: The Apocalypse (sem ég keypti að lokum af honum).

Verkfallinu lauk og þegar kom að útskriftarferðinni til Reykjavíkur var ég ekki bara með það á dagskránni að fara ótal sinnum í bíó og heimsækja safnarabúðir heldur ætlaði ég að heimsækja búðina Goðsögn á Rauðárstíg. Þegar ég kom þar var miði á glugganum þar sem tilkynnt var um lokun hennar en vísað á búðina Fáfni.

Ég skoðaði hitt og þetta í Fáfni en ég var nokkurn veginn búinn að ákveða að kaupa bækur í Vampire: The Masquerade. Það vildi svo vel til að á sama tíma og ég þá var annar að velta sér fyrir sér að kaupa Vampire. Sá var reyndar líka Akureyringur ef ég man rétt. Hann fékk allar sínar upplýsingar frá ákaflega fróðum (og duglegum) sölumanni í búðinni. Hinn Akureyringurinn keypti nær allt sem stungið var upp á. Ég tók í kjölfarið og keypti kjarnabókina og eitt ævintýri (Dark Colony).

Ég átti eftir að versla oft í Fáfni þó hún hafi nokkrum árum seinna breytt um nafn og orðið Nexus. Sölumaðurinn duglegi er ennþá duglegur og í einhverri heimsókn þarna lærði ég að hann heitir Gísli. Ég átti að lokum hillu af bókum tengdum Vampire og hinum svokallaða World of Darkness. Ekki allt keypt hjá Gísla en þó flest. Mig minnir þó að ég hafi fengið heilmargt þegar verslunin Míþríl hætti á sínum tíma. Ég keypti eiginlega ekkert af bókum eftir að Vampire fór í þriðju útgáfu (ég spilaði aðra útgáfu) þar sem mér fannst sú útgáfa taka sig full alvarlega. Þegar ég stjórnaði spilum þá var ég að stjórna World of Darkness.

Bækurnar eru núna flestar ofan í kjallara en satt best að segja fæ ég ennþá svona kitl og langar að spila en ég hef ekki gert það í árafjöld.