Sóley Tómasdóttir er lélegur stjórnmálamaður

Fyrirsögnin mín er held ég rétt. Sóley er lélegur stjórnmálamaður. Ef hún væri góður stjórnmálamaður myndi fólk átta sig á því að hún er besti borgarfulltrúinn sem við höfum haft undanfarin ár. Þegar kemur að menntamálum, velferðarmálum, andspyrnu við einkavæðingu og allt annað sem ég man eftir þá hefur hún staðið sig betur í baráttunni en nokkur annar og oft er hún ein að halda uppi andstöðu frá vinstri.

En hún er lélegur stjórnmálamaður. Góðir stjórnmálamenn hafa vit á að tjá sig ekki um umdeild málefni ef þeir komast hjá því. Sóley hefur ekki vit á því. Við vitum nákvæmlega hvar hún stendur af því að hún segir okkur það. Hún er sumsé svona stjórnmálamaður eins og fólk þykist vilja en vill ekki í raun. Fólk segist vilja einlægni en fellur síðan fyrir fagurgala.

Í vor mun margt vinstra fólk kjósa til hægri við VG af því að það er ósammála skoðunum Sóleyjar í málum sem aldrei koma inn á borð borgarstjórnar. Það er galið. Það er líka galið af því að Sóley er örugg inn en með smá aukastyrk þá gæti Líf (sem er í öðru sætinu) komist inn í borgarstjórn.

Ég hef lesið það að ýmsir vinstri menn segja að þeir hefðu kosið VG ef Líf hefði verið í efsta sætinu. Það er galið því atkvæði til VG er mun frekar til stuðnings henni heldur en Sóleyju. Fólk heldur að það sé að kjósa efsta sætið en í raun snýst kosningin um baráttusætið – og það er Líf.