Queenplötur dæmdar – 9. Jazz (1978)

JazzÍ níunda sæti er það Jazz. Frægt er að húmorslaus gagnrýnandi Rolling Stone dæmdi plötuna á þá leið að Queen væri fasísk hljómsveit. Húmorsleysi er auðvitað gulltryggð leið til að fatta ekki Queen. Það á líka innilega við um Jazz sem er svo frábærlega fyndin á köflum.

Mustapha byrjar plötuna af þvílíkum krafti með hálfgerðu bænakalli. Ég man ekki eftir öðru lagi þar sem Freddie sýnir rætur sínar jafn ljóst. Allavega er ljóst að þarna er hljómur sem hann kannaðist við frá æsku sinni á Zanzibar. Textinn er á arabísku, ensku og líklega þar að auki á tungumáli Parsa. Ég reynt að lesa mér til og hef svona samanlagt fengið þýðingu á því og hef ályktað að textinn hafi í raun enga beina merkingu. Líklega er hann frekar ætlaður til að skapa stemmingu heldur en nokkuð annað. En flott er lagið.

Fat Bottomed Girls er eftir Brian May, sem kemur á óvart því svona ósvífni í textagerð hefði maður eiginlega frekar tengt við Roger eða Freddie. En lagið er fyndið og skemmtilegt rokklag. Spinal Tap hæddist auðvitað að þessu lagi og fengu síðan að koma frá á minningartónleikunum hans Freddie sem sýnir kannski best húmorinn sem Queen hefur fyrir tónlist sinni.

Jealousy er lag um ástarsorg og afbrýðissemi. Í lagi er hálfgerðu sítartónn sem er auðvitað bara Brian að leika sér á gítar. Yndislegt.

Bicycle Race er æðislegt og æðislegt. En þegar ég er að hjóla kemur það aldrei á frábæru köflunum þar sem ég þýt niður brekkurnar heldur þegar ég er að fara upp þær og er ekki jafn hvetjandi og maður myndi ætla. Uppáhaldskaflinn minn er þegar reiðhjólabjöllurnar hljóma. Það er svo undarleg hugmynd að fá og framkvæma. Lagið kallast síðan á við FBG og FGB kallar á móti enda enduðu lögin saman á smáskífu.

If You Can’t Beat Them er enn og aftur hratt og skemmtilegt rokklag.

Let Me Entertain You er Queen að hæðast að sér. Rokk af matseðlinum. Ákall um að taka tónlistina ekki of alvarlega. En um leið er þetta stefnuyfirlýsing um að þeirra helsta hugðarefni sé að skemmta áhorfendunum. Þar sáu þeir sig sem uppreisn gegn þeim sem helst spiluðu án þess að líta í augun á þeim sem hlustuðu. En er til betri leið til að byrja tónleika en á þessu lag? Ég held bara ekki.

Dead on Time er áfram hratt rokk. Það er ákafi í þessu lagi.

In Only Seven Days skiptir um gír og er hálferkitýpískt og ljúft Deacon lag.

Það vottar fyrir djassi í The Dreamer’s Ball. Eini djassinn á Jazz. En það er líka draumkennt. Saga af ást sem ekki rætist nema í draumi.

Fun it er fyrsta diskó/fönk tilraun Queen og er merkilegt nokk eftir Roger Taylor. Skemmtilegt en mögulega slakasta lagið á plötunni. Roger á bæði einstaklega góða og einstaklega slaka texta. Þessi er ekki sérstaklega góður.

Leaving Home Ain’t Easy er aftur gírskipti. Kannski er platan eins og Tour de France þar sem þarf að skipta reglulega upp og niður til að klífa upp og niður hæðir. Ljúft lag sem er í uppáhaldi. Sungið af Brian.

Og ef þú þarft að komast í stuð þá er Don’t Stop Me Now auðvitað málið. Ég hélt að það héti Mr. Fahrenheit og var eitt af Queenlögunum sem var þegar í uppáhaldi hjá mér áður en ég varð aðdáandi.

More of that Jazz er lag sem maður hlustar kannski ekki nóg á. Það er kannski af því að það notar klippur úr öðrum lögum plötunnar og er því frekar eins og einhver eftir-á hugsun. En þetta er einn af góðum textunum hans Roger og hann syngur sjálfur og sýnir hvað hann getur.

Only football gives us thrills
Rock ‘n roll just pays the bills
Only our team is the real team
Jazz átti að fara í tólfta sætið en ég þarf að endurskoða þau plön. Þetta er betri plata en mig minnti.